Íslenski boltinn

ÍTF greiddi fé­lögum sínum 300 milljónir

Sindri Sverrisson skrifar
Breiðablik og FH eru meðal þeirra félaga sem fá hæstan hlut af 300 milljóna greiðslu ÍTF, enda með lið í Bestu deild bæði karla og kvenna í fyrra.
Breiðablik og FH eru meðal þeirra félaga sem fá hæstan hlut af 300 milljóna greiðslu ÍTF, enda með lið í Bestu deild bæði karla og kvenna í fyrra. vísir/Hulda Margrét

Félögin í efstu tveimur deildum karla og kvenna í fótbolta fengu samtals 300 milljónir króna á síðasta ári frá Íslenskum toppfótbolta, hagsmunasamtökum félaganna í þessum deildum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ÍTF en tekjur af réttindasölu samtakanna náum tæpum 360 milljónum króna á síðasta ári.

Greiðslurnar til félaganna eru misháar og fara hæstu greiðslurnar til félaga sem áttu lið í Bestu deild karla, svo til þeirra sem áttu lið í Bestu deild kvenna, Lengjudeild karla og að lokum Lengjudeild kvenna. Skiptingin fer eftir réttindagreiðslum varðandi veðmál, gögn og sjónvarpsútsendingar.

Samtökin tóku á sínum tíma alfarið yfir réttindasamninga félaga í efstu deildum af KSÍ, og segja söluverðmæti þeirra hafa aukist umtalsvert.

Valsari í stjórn í stað KR-ings

Heildartekjur á árinu 2023 voru um 460 milljónir króna en í tilkynningu ÍTF segir að verulegur kostnaður hafi fylgt því að koma nýju vörumerki Bestu deildanna á framfæri. Það muni áfram kosta fjármuni og vinnu en skila sér til lengri tíma litið.

Hagnaður af starfsemi ÍTF var um 21 milljónir króna að teknu tilliti til fjármagnstekna og gengishagnaðar. Gert er ráð fyrir svipuðum hagnaði í ár og að greiðslur til aðildarfélaganna verði álíka háar.

Orri Hlöðversson (Breiðabliki) er áfram formaður ÍTF, Jón Rúnar Halldórsson (FH) varaformaður og Guðbjörg Fanndal Torfadóttir (Aftureldingu) ritari. Í stjórn sitja jafnframt áfram Baldur Már Bragason (HK), Heimir Gunnlaugsson (Víkingi) og Samúel Samúelsson (Vestra) en Styrmir Þór Bragason (Val) kemur nýr inn í stað Jónasar Kristinssonar (KR).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×