Þann 21. júní árið 2022 barst lögreglunni á Austurlandi tilkynning um alvarlegt slys á hafnarsvæði í Gleðivík á Djúpavogi. Þar hafði karlmaður, erlendur ferðamaður á sjötugsaldri, hlotið áverka eftir að hafa orðið fyrir lyftara og var hann úrskurðaður látinn á vettvangi.
Málið hefur dregið nokkurn á eftir sér en ökumaður lyftarans var dæmdur í 45 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir manndráp af gáleysi og ákveðið var að listaverki Sigurðar Guðmundssonar yrði fundinn nýr staður vegna slyssins.
Í orsakagreiningu skýrslu Rannsóknarnefndar samgöngumála kemur fram að vinnuvélinni hafi verið ekið áfram, meðfram listaverkinu á vinstri vegarhelmingi akbrautarinnar, en útsýn úr vinnuvélinni fram á veginn hafi verið takmörkuð vegna fiskikara.
Beinir til Múlaþings að tryggja öryggi
Á slysstað hafi landnotkun verið blandað saman en skipulag fyrir svæðið einungis gert ráð fyrir hafnarstarfsemi. Ekki hafi verið til deiliskipulag fyrir svæðið við listaverkið.
„Samhliða vöntun á þessum skipulagsþáttum var ekki hugað að öryggi almennings. Þá hafði ekki verið unnin umferðaröryggisáætlun fyrir þéttbýlisstaðinn Djúpavog.“
Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Múlaþings að greina og útfæra breytingar til að tryggja öryggi vegfarenda á svæðinu við listaverkið við Víkurland.
Hefði átt að aka aftur á bak
Í skýrslunni segir að meginorsök slyssins hafi verið sú að ökumaður lyftarans hafi ekki veitt gangandi vegfaranda athygli. Útsýn hans fram á veginn hafi verið skert vegna farms á göfflum vinnuvélarinnar.
Þá segir að aðrar orsakir hafi verið að vinnuvélinni var ekið á vinstri vegarhelmingi akbrautarinnar, nærri listaverkinu, vinnuvélinni hafi ekki verið ekið aftur á bak og umferð gangandi vegfarenda og ökutækja á Víkurlandi hafi ekki verið aðgreind.
Í vinnuvélakennslu sé lögð áhersla á að aka vinnuvélum aftur á bak þegar farmur á göflum hindrar útsýn ökumanns. Í þessu tilfelli hafi verið um eins kílómetra vegalengd að fara á milli tveggja hafna innan sveitarfélagsins og að hluta til um svæði sem ferðamenn sækja í að skoða.