Viðskipti innlent

Gunnar Páll nýr fram­kvæmda­stjóri ALVA fram­kvæmda

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Gunnar Páll Viðarsson er nýr framkvæmdastjóri ALVA framkvæmda.
Gunnar Páll Viðarsson er nýr framkvæmdastjóri ALVA framkvæmda.

Gunnar Páll Viðarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri ALVA framkvæmda hjá fjárfestingarfélaginu ALVA Capital. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Þar segir að Gunnar sé byggingatæknifræðingur og hafi þegar hafið störf. Hann hafi víðtæka reynslu af staðarstjórn og stýringu stórra verkefna.

Undanfarin tuttugu ár hefur Gunnar meðal annars komið að byggingu hreinsistöðva við Klettagarða og Mýrargötu og nýbyggingar Alþingis, stíflugerð við Kárahnjúka og uppsteypu nýrra flughlaða fyrir Isavia ásamt fleiri stórum verkefnum. Gunnar starfaði áður fyrir ÞG verk og þar áður fyrir ÍAV.

ALVA framkvæmdir vinna að fjölbreyttum framkvæmdum og uppbyggingarverkefnum en meðal verkefna sem Gunnar mun stýra eru umfangsmiklar breytingar og stækkun á 22 Hill hótelinu í Brautarholti 22-24 og uppbygging fjölda íbúða og vinnustofa í Stangarhyl. Félagið vinnur mest fyrir Alva Capital samstæðuna en stefnir á að taka þátt í útboðum, bæði fyrir hið opinbera og í einkageiranum.

ALVA Capital var stofnað árið 2012 og hefur komið að stofnun og rekstri fyrirtækja á borð við Netgíró, Heimkaup, Inkasso og Moberg en megináherslur félagsins í dag eru fjárfestingar í þróun og rekstri fasteigna. Meðal eigna félagsins eru þrjú hótel og samtals 200 leigueiningar sem eru í útleigu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×