Innlent

„Akkúrat þessi fyrir­vari sem veldur okkur á­hyggjum“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá síðasta eldgosi við Grindavík fyrr í mánuðinum.
Frá síðasta eldgosi við Grindavík fyrr í mánuðinum. Vísir/RAX

„Staðan er bara sú að við deilum áhyggjum Veðurstofunnar yfir því hvað geti gerst á næstu dögum,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir samskiptastjóri almannavarna um stöðuna á Reykjanesi. Veðurstofan telur eldgos líklegt í vikunni sem nú fer í hönd og að byrjað gæti að gjósa með innan við hálftíma fyrirvara.

„Við höfum líka ahyggjur af því þegar fólk fer að tala um daga, hvaða dag eldgos byrjar, það er engan veginn hægt að segja til um það. En vísbendingarnar eru þannig núna að það er líklegt að eldgos komi á næstu dögum, í nótt, jafnvel á morgun, enginn getur sagt til um það,“ segir Hjördís.

Síðustu nætur hefur verið gist í um tíu til fimmtán húsum í Grindavík og þá eru einnig gestir á Svartsengissvæðinu.

Hafið þið áhyggjur af því að það gæti reynst erfitt að koma fólki burtu ef þetta gerist mjög skyndilega, það hefur verið talað um innan við hálftíma fyrirvara?

„Það er akkúrat þessi fyrirvari sem veldur okkur áhyggjum. Það tekur alltaf tíma að koma fólki burtu í rýmingu. En við erum í góðu samstarfi við alla þessa viðbragðsaðila sem munu þá aðstoða okkur við að koma rýmingu af stað. Bæði erum við að nota þessar viðvörunarflautur sem er búið að koma upp á þremur stöðum í Grindavík og líka við Bláa lónið. Og svo eru þessi skilaboð sem fólk fær í símana, sem við getum reyndar ekki tryggt að allir fái. En það mun ekki fara á milli mála ef til rýmingjar kemur,“ segir Hjördís.


Tengdar fréttir

Heitt vatn komið á í Grindavík

Heitt vatn er komið aftur á í Grindavík og gert er ráð fyrir eðlilegum þrýstingi á hitaveituna eftir helgi. Í dag var ný hjáveitulögn tengd við hitaveituna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×