Fulltrúar Starfsgreinasambandsins og Eflingar komu saman til fundar við fulltrúa Samtaka atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara klukkan níu í morgun eftir stíf fundarhöld undanfarna daga. Samkvæmt heimildum fréttastofu er góður andi í viðræðunum og samningsaðilar nánast í daglegu sambandi við stjórnvöld.

Almennt hefur verið stefnt að hóflegum launahækkunum á næstu fjórum árum en að stjórnvöld komi ríkulega að samningum með eflingu tilfærslukerfanna svo kölluðu, svo sem með auknum framlögum til barna- og vaxtabóta og endurbótum á húsnæðiskerfinu.

Það flækir nokkuð stöðuna að VR og Landssamband verslunarmanna sagði sig frá breiðfylkingu stéttarfélaga innan Alþýðusambandsins á föstudag vegna ágreinings um forsendur samninga hvað varðar þróun vaxta. Fulltrúar þeirra hafa ekki sést í húsakynnum ríkissáttasemjara eftir það. Hins vegar eru fulltrúar opinberu félaganna, BSRB, BHM og KÍ í Karphúsinu ásamt talsmanni Fagfélaganna.
Samkvæmt heimildum fréttastofu eru samningar almennt langt komnir og fer að líða að því að einhver heildarmynd verði lögð fyrir stjórnvöld. Það gæti gerst um eða upp úr miðri þessari viku og stjórnvöld sýni þá á spilin.
Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að halda meginvöxtum sínum óbreyttum í 9,25 prósentum hinn 20. mars. Fjórir fulltrúar nefndarinnar komust að þessari niðurstöðu en fimmti nefndarmaðurinn. Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, vildi lækka vextina um 0,25 prósentur.

Í fundargerð peningastefnunefndar kemur fram að hann hefði talið að nýjustu gögn sýndu að aðhald peningastefnunnar hefði verið nægjanlegt undanfarið enda hefði dregið jafnt og þétt úr umsvifum í þjóðarbúskapnum. Einnig fæli nýleg þróun efnahagsmála, verðbólguhorfa og raunvaxta í sér vísbendingar um að komið væri að því að lækka vexti.
Margt bendir til að Gunnar hafi rétt fyrir sér. Þannig spáir hagfræðideild Landsbankans því að tólf mánaða verðbólga verði 6,1 prósent í febrúar og lækki þannig um 0,6 prósentustig frá fyrra mánuði. Forsendur allra kjarasamninga á almenna- og opinbera markaðnum sem nú er verið að semja um miða að því að verðbólga minnki og vextir lækki.