Þetta segir Maria Pevchikh, bandamaður Navalní. Samkomulag um fangaskipti hafi verið á lokametrunum þar sem til stóð að skipta á Navalní og tveimur bandarískum ríkisborgurum í staðinn fyrir Vadim Krasikov, rússneskan leigumorðingja, sem afplánar lífstíðardóm fyrir morð í Þýskalandi.
Hinn 47 ára Navalní var vistaður í fanganýlendu í Síberíu þegar hann lést en yfirvöld í Rússlandi hafa haldið því fram að hann hafi hnigið niður eftir að hafa fengið sér göngutúr. Móðir Navalní hefur loks fengið lík hans afhent, eftir tafir af hálfu Rússa.
. . , . , , . https://t.co/nZij8BRhpN
— Maria Pevchikh (@pevchikh) February 26, 2024
Að sögn Pevchikh, sem er stjórnarformaður Anti-Corruption Foundation sem stofnuð var af Navalní, höfðu viðræður um fangaskiptin staðið yfir í um tvö ár. Eftir innrás Rússa í Úkraínu hefði orðið ljóst að Vladimír Pútín, forseti Rússlands, myndi svífast einskis og að frelsa þyrfti Navalní með hraði.
Bandarískir og þýskir embættismenn eru sagðir hafa komið að viðræðunum sem var að mestu lokið í desember.
Pevchikh telur hins vegar að Pútín hafi snúist hugur á síðustu stundu; blindaður af hatri gagnvart andstæðingi sínum og ekki þolað að hann yrði frjáls. Forsetinn hefði þannig ákveðið að fjarlægja Navalní af spilaborðinu.
Samkvæmt BBC hafa stjórnvöld í Þýskalandi neitað að tjá sig um málið að svo stöddu.