Ísraelsher hefur smátt og smátt fært árásir sínar suður á bóginn á Gaza frá því hefndarárásir hersins hófust eftir hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael hinn 7. október. Hundruð þúsunda manna hefur flúið suður eftir Gazaströndinni og eru nú í Rafahborg. Þar hafa Ísraelsmenn haldið uppi stöðugum loftárásum meðal annars á fjölbýlishús þar sem hundrað manns höfðust við síðast liðna nótt, aðallega konur og börn að sögn vitna.
Íbúum eru flestar bjargir bannaðar og skortur á öllu, bæði mat, lyfjum og eldsneyti. Fólk bíður klukkustundum saman í von um brauð handa börnum sínum. Shurooq Shannan flúði til Rafah með börn sín þar sem hún deilir tjaldi með átta fjölskyldum.

„Ég er alltaf mætt kl. 6 og bíð í þrjá tíma. Við erum átta fjölskyldur sem búum í einu tjaldi. Ég reyni að ná í brauð handa börnunum. Við eigum ekkert brauð og ástandið er erfitt. Við höfum engan eldivið til að kveikja eld og við eigum ekkert hveiti," sagði Shannan í röðinni í dag.
Sameinuðu þjóðunum tekst enn að koma hjálpargögnum til Rafah en ná engan veginn að anna þörfinni. Á Al-Awda spítalanum er neyðin mikil þar sem tugir kvenna fæða börn á hverjum degi og önnur eru tekin með keisaraskurði. En þótt hörmungarnar séu miklar í Rafah er neyðin enn meiri í Gazaborg og nágrenni í norðurhlutanum þangað sem lítið sem ekkert berst af hjálpargögnum.

„Ég óska þess að börnin deyi því ég get ekki gefið þeim brauð. Ég get ekki brauðfætt þau. Ég get ekki gefið börnum mínum að borða. Fólk deyr á hverjum degi. Engin hrísgrjón eru til, enginn maður, ekkert hveiti,“ hrópaði Naim Abouseido örvæntingarfullur á Gazaströndinni í dag þar sem hann hélt í hönd sonar síns.
Sprengjunum er hætt að rigna á Gazaborg en neyð íbúanna er algjör. Joe Biden Bandaríkjaforseti vonar að vopnahlé komist á bráðlega fyrir milligöngu Qatar og Egyptalands.
„Öryggisráðgjafi minn segir mér að stutt sé eftir. Við erum að nálgast en þetta er ekki enn búið. Ég vona að það verði vopnahlé á mánudaginn," sagði forsetinn þar sem fréttamenn komust að honum eftir sjónvarpsviðtal í dag.
Stefnt er að því að vopnahléð standi í sex vikur. Það verði notað til að skiptast á gíslum í haldi Hamasliða og Palestínumönnum í haldi Ísraels og koma vistum til íbúa Gaza.