Eins og fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var fiskiskipinu Heimaey snúið við síðdegis í gær eftir að ábending barst frá línubáti um loðnu í Víkurál. Heimaey var þá á heimsiglingu af Vestfjarðamiðum eftir að hafa lokið loðnuleit með starfsmenn Hafrannsóknastofnunar um borð.
„Heimaey sá loðnu á grunnunum við Víkurál en það var ekki í neinu magni sem skiptir máli fyrir heildarmyndina,“ sagði Birkir laust fyrir hádegi.
Heimaey kom á svæðið í gærkvöldi og lauk yfirferð sinni í morgun. Spurður hvort þarna hafi verið svokölluð vestanganga á ferð segir Birkir að það megi reikna með að loðnan hafi verið að ganga til hrygningar en ítrekar að magnið hafi ekki verið afgerandi fyrir heildarmyndina.

Þetta var þriðja loðnuleitin frá áramótum en óvíst er hvort reynt verði að leita betur. Útgerðarfyrirtæki hafa greitt tvo þriðju hluta kostnaðar en Hafrannsóknastofnun þriðjung.
„Við munum funda með útgerðinni seinna í dag til að fara yfir stöðuna. Það er ekki búið að ákveða framhaldið,“ segir Birkir.
Rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson verða ekki tiltæk í loðnuleit á næstunni þar sem þau verða bæði í svokölluðu togararalli kringum landið. Togararnir Gullver og Breki taka einnig þátt í rallinu. Skipin mun þó að einhverju leyti vakta miðin gagnvart loðnu og verða með bergmálsmælana á upptöku.