Tilkynnt var um leyfið aðfaranótt laugardags fyrir tæpri viku og ríkti mikil spenna hvað yrði með bréf í Alvotech þegar opnað yrði fyrir viðskipti í Kauphöllinni á mánudagsmorgun. Félaginu barst 23 milljarða tilboð frá hópi fagfjárfesta og viðurkenndra gagnaðila og rauk hlutabréfaverðið upp um ellefu prósent.
Róbert Wessmann forstjóri Alvotech sagðist vænta þess að stórir sölusamningar myndu klárast á næstu vikum. Þá kom fram að Alvotech áformaði að auka umsvif sín í Vatnsmýrinni með því að efla framleiðslugetu og fjölga enn frekar starfsfólki.
Verð á bréfunum lækkaði nokkuð skart strax á þriðjudag og hefur svo lækkað lítillega dag frá degi. Viðskipti með bréf í félaginu það sem af er degi nemur rúmlega hundrað milljónum og hefur verð á bréfum lækkað um tæp tvö prósent.
Það stendur nú í 2130 krónum á hlut sem er lægsta verð á bréfum í félaginu síðan í lok janúar. Í stóra samhenginu hefur verð á bréfum fyrirtækisins aldrei verið hærra frá því að fyrirtækið kom á markað í júlí 2022 á genginu 1332 krónur á hlut. Það fór hæst í 2.050 krónur á hlut í mars í fyrra, tók svo skarpa dýfu en er nú komið aftur í 2.130 krónur á hlut.
Alvotech sagði upp 21 starfsmanni í vikunni. Félagið er verðmætasta félagið í Kauphöllinni en það er metið á 629 milljarða íslenskra króna. Marel kemur þar á eftir með markaðsvirði upp á 360 milljarða króna.