Fótbolti

Fabrizio Roma­no sagður fá borgað fyrir að tjá sig um á­kveðna aðila

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fabrizio Romano þekkja flest þau sem fylgjast með knattspyrnu enda verið gríðarlega vinsæll á samfélagsmiðlum undanfarin ár.
Fabrizio Romano þekkja flest þau sem fylgjast með knattspyrnu enda verið gríðarlega vinsæll á samfélagsmiðlum undanfarin ár. B/R Football

Fabrizio Romano, maðurinn sem er ávallt með puttann á púlsinum þegar kemur að félagaskiptum innan knattspyrnuheimsins, er sagður bjóða liðum og leikmönnum umfjöllun gegn greiðslu.

Er hann sakaður um að dreifa því sem kalla mætti „falsfréttir“ svo lengi sem hann fær borgað. Það er Tipsbladet í Danmörku sem greinir frá þessu en ástæðan fyrir umfjöllun blaðsins um starfsemi Romano er umfjöllun hans um sænska undrabarnið Roony Bardghji hjá FC Kaupmannahöfn. 

Sá skoraði til að mynda sigurmark í ótrúlegum 3-2 sigri á  Manchester United í Meistaradeild Evrópu fyrir ekki svo löngu síðan.

Roony hefur hins vegar ekki átt upp á dekk hjá Jacob Neestrup, þjálfara FCK, eftir að danska deildin sneri til baka eftir jólafrí. Roony kom inn af bekknum í 2-0 tapinu gegn Midtjylland í gær, föstudag, en þurfti að sætta sig við að bekkjarsetu í sigrum á Nordsjælland og Silkeborg sem og tapi gegn Manchester City í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Romano tjáði sig nýverið um stöðu Roony í Kaupmannahöfn og sagði hann sitja á bekknum þar sem vængmaðurinn neitaði að framlengja samning sinn í höfuðborg Danmerkur. Núverandi samningur hins 18 ára gamla Roony rennur út sumarið 2025.

Forráðamenn FCK hafa opinberlega neitað þessum ásökunum en óvænt umfjöllun Romano um mál Roony fékk Troels Bager Thogersen hjá Tipsbladet, til að hefja rannsókn á Romano og teymi hans.

Thogersen segir að Romano, og þeir sem með honum vinna, hafi verið í sambandi við lið og leikmenn í von um að fá borgað verði leikmaðurinn, eða félagið, nefndur á samfélagsmiðlum Romano. Þá segir Thogersen það ljóst að umboðskrifstofa Roony hafi „plantað“ orðræðunni um samningsmál leikmannsins og bekkjarsetu hans.

„Ég veit að Romano er líkt og guð á samfélagsmiðlum. Ég veit líka að oft fær hann upplýsingar sínar frá umboðsmönnum og er í raun bara að básúna þeirra hagsmunum. Það er mjög svo staðan í máli Roony. Þetta er ekki blaðamennska og það er helsti punkturinn hér. Það sem virðist vera blaðamennska er rekið af áfram af fjárhagslegum ávinningi.“

Þá hafa norskir fjölmiðlar einnig fjallað um málið. Á vef Idrettspolitikk segir að Romano hafi í gegnum þriðja aðila boðið norska knattspyrnufélaginu Vålerenga umfjöllun, og orðróma, um ákveðna leikmenn gegn greiðslu.

Tipsbladet hefur boðið hinum 31 árs gamla Romano að segja sína hlið en hann hefur ekki viljað veita viðtal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×