Innlent

Katrín loðin í svörum um forsetaframboð

Jakob Bjarnar skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði næg verkefni í forsætisráðuneytinu en vildi þó ekki svara nei, eða já, af eða á, eins og Guðmundur Ingi vildi.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði næg verkefni í forsætisráðuneytinu en vildi þó ekki svara nei, eða já, af eða á, eins og Guðmundur Ingi vildi. Vísir/Vilhelm

Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi nú rétt í þessu var Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra spurð um það sérstaklega hvort hún ætlaði að gefa kost á sér í komandi forsetakosningaslag.

Fyrirspurnin kom nokkuð á óvart, í það minnsta virtist hún koma Katrínu á óvart en það var Guðmundur Ingi Kristinsson þingmaður Flokks fólksins sem bar upp spurninguna. Katrín vildi slá þessu upp í grín í svari sínu.

„Já, herra forseti, ég ætla nú bara að segja að ég trúi því varla að í kjördæmaviku þingmanna sé þetta aðalspurningin. Ég vil bara hughreysta þingmanninn, ég er enn í störfum sem forsætisráðherra og verð hér enn um sinn,“ svaraði Katrín.

En Guðmundur Ingi gaf sig ekki, hann þakkaði Katrínu fyrir „ekki svarið, því þetta væri eiginlega ekkert svar.“ Og Guðmundur Ingi vitnaði í Eurovision-slagarann Nei eða já. „Nei eða já, af eða á. Ætlar forsætisráðherra að bjóða sig fram eða ekki?“

Katrín kom þá í púlt öðru sinni og svarið var: „Já, herra forseti. Ég hef ekki leitt hugann að slíku framboði enda eru ærin verkefni í forsætisráðuneytinu.“

Og þar við sat.

Katrín er ekki sú eina sem hefur verið loðin í svörum um forsetaframboð. Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttakona RÚV, svaraði símtali blaðamanns Vísis fyrir helgi, hló að spurningunni um mögulegt forsetaframboð en sagðist svo ekki hafa tíma til að ræða málið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×