Erlent

Skýr merki um að Hamas hafi beitt konur og börn kyn­ferðis­of­beldi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tímabundinn minnisvarði um þá sem Hamas-liðar myrtu í árás sinni á tónlistarhátíð í Ísrael 7. október síðastliðinn.
Tímabundinn minnisvarði um þá sem Hamas-liðar myrtu í árás sinni á tónlistarhátíð í Ísrael 7. október síðastliðinn. Getty/Spencer Platt

Sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í málefnum er varða kynferðisofbeldi í átökum segir skýr merki um að konum og börnum í haldi Hamas-samtakanna hafi verið nauðgað og þau beitt kynferðislegum pyntingum.

Þá sé tilefni til að ætla að brotin standi enn yfir.

Sendifulltrúinn, Pramila Patten, greindi frá þessu í gær en hún sagði einnig rök hníga að því að Hamas-liðar hefðu framið kynferðisbrot þegar þeir réðust á byggðir Ísraelsmanna 7. október síðastliðinn, meðal annars nauðganir og hópnauðganir.

Patten fór fyrir níu manna sérfræðinganefnd sem ferðaðist til Ísraels og Vesturbakkans í febrúar en sagði tímarammann hafa sett teyminu ákveðnar takmarkanir; það hefði til að mynda ekki gefist tími til að fá þolendur ofbeldisins til að stíga fram og ræða við teymið.

Sum væru í meðferð vegna áfallsins, aðrir hefðu flutt innanlands eða til útlanda og þá væru sum vitni að sinna herskyldu.

Patten sagði einnig að skortur á trausti meðal þolenda og fjölskyldna gísla í haldi Hamas í garð opinberra og alþjóðlegra stofnana á borð við Sameinuðu þjóðirnar og kastljós fjölmiðla á þá sem stigu fram, hefðu gert það erfitt að fá þolendur til að stíga fram.

Teymi ræddi hins vegar við fjölda vitna, yfirfór mikið magn myndefnis og tók viðtöl við gísla sem Hamas höfðu sleppt úr haldi. Viðtölin hefðu leitt í ljós að konur og börn í haldi Hamas hefðu verið og væru beitt kynferðisofbeldi, nauðgunum, pyntingum og annarri ómannúðlegri og niðurlægjandi meðferð.

Hér má finna umfjöllun Guardian um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×