Samkvæmt Bloomberg Billionaires Index er Bezos metinn á tvö hundruð milljarða dala og Musk á 198 milljarða. Það samsvarar 27,4 billjónum króna annars vegar og 27,1 billjón hins vegar.
Á lista Bloomberg kemur fram að á undanförnu ári hafi auður Bezos aukist um 23,4 milljarða dala. Musk er hins vegar sagður hafa tapað 31,3 milljörðum.
Bernard Arnault situr í þriðja sæti en hann er metinn á 197 milljarða dala.
Bezos og Musk hafa skipst á sætum undanfarin ár en samkvæmt frétt Wall Street Journal hefur Bezos verið að selja töluvert magn af hlutabréfum í Amazon, fyrirtækinu sem gerði hann ríkan. Hann er sagður hafa selt hlutabréf fyrir meira en 8,5 milljarða dala á undanförnum vikum.
Samdrátt á virði Musks má að miklu leyti rekja til þess að virði bílafyrirtækisins Tesla hefur dregist saman um 24 prósent á undanförnu ári. Þá tapaði hann miklum auði þegar dómari komst að þeirri niðurstöðu fyrr á árinu að Musk mátti ekki fá 55 milljarða dala greiðslu frá Tesla, í formi kaupréttar árið 2018.