Þann 10. febrúar hélt þriggja manna sendinefnd frá utanríkisráðuneytinu út til Kaíró í Egyptalandi í þeim tilgangi að greiða fyrir för dvalarleyfishafanna út af Gasasvæðinu.
Nefndin hefur verið í Kaíró í margar vikur að vinna í málinu en stjórnvöld í Ísrael og Egyptalandi stjórna umferð yfir landamæri Rafah-landamærastöðvarinnar.
Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra átti símafund með Israel Katz, utanríkisráðherra Ísraels fyrir viku síðan, til að reyna að hraða afgreiðslu málsins. Hann lýsti aðdraganda símafundarins í hádegisfréttum Bylgjunnar.
„Svona uppsafnað, þá var það orðin tilfinning okkar fólks á svæðinu að það gæti þurft að beita pólitískum og diplómatískum leiðum til að liðka fyrir afgreiðslu listans sem við höfðum lagt fram og vörðuðu þá sem höfðu fengið dvalarleyfi samþykkt á Íslandi og í framhaldi af því þá óskaði ég eftir samtali við utanríkisráðherra Ísraels.“
Bjarni bað Katz um að veita ráðuneytinu liðsinni.
„Í framhaldi af því þá fóru hlutirnir aðeins að taka við sér og það komst hreyfing á málið og drjúgur meirihluti allra á listanum var á endanum samþykktur þótt það hafi ekki átt við um alla og okkar fólk, sem unnið alveg ótrúlega og merkilega og mikilvæga vinnu á svæðinu, tók þá við keflinu og hjálpaði til við að sækja fólkið og koma því í örugga höfn í Egyptalandi sem verður eins konar millilending áður en fólkið kemur alla leið til Íslands.“
Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu komust tólf einstaklingar á lista stjórnvalda yfir landamærin án aðkomu íslenskra stjórnvalda en íslenskir sjálfboðaliðar hafa unnið síðastliðnar vikur við að aðstoða dvalarleyfishafa yfir landamærin en nú þegar stjórnvöld hafa náð sjötíu og tveimur út af svæðinu eru þrettán dvalarleyfishafar enn fastir á Gasa.
Í Facebookfærslu frá íslensku sjálfboðaliðunum í Kaíró kemur fram að það séu miklar gleðifréttir og léttir að tekist hafi að greiða leið sjötíu og tveggja dvalarleyfishafa. Þau segja verki þeirra í Kaíró ekki vera lokið og að fjármagnið sem hafi safnast fari í ná öllum dvalarleyfishöfum út af Gasa.
Gengið er út frá því að palestínski hópurinn komi til Íslands á næstu dögum en íslensk stjórnvöld hafa lofað egypskum stjórnvöldum að íslensku dvalarleyfishafarnir verði farnir frá Egyptalandi innan sjötíu og tveggja klukkustunda. Á vef félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins kemur fram að Vinnumálastofnun vinni að móttöku fólksins hér á landi í samráði við sveitarfélög.