Innlent

Nokkrir hand­teknir í tengslum við að­gerðirnar

Jón Þór Stefánsson skrifar
Lögreglan lokaði af nokkrum stöðum vegna aðgerðanna.
Lögreglan lokaði af nokkrum stöðum vegna aðgerðanna. Vísir/Vilhelm

Nokkrir hafa verið handteknir í umfangsmiklum aðgerðum lögreglunnar í dag. Grunur um mansal, peningaþvætti og skipulagða glæpastarfsemi leiddi til aðgerðanna sem snúa að fyrirtækjum Davíðs Viðarsonar, sem á meðal annars Vy-þrif, Pho Víetnam, og Wok On.

RÚV greinir frá því að fimm hafi verið handteknir vegna málsins. Fréttastofa hefur ekki fengið þá tölu staðfesta, en skilst að hún sé nær lagi.

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn getur ekki staðfest hversu margir hafi verið handteknir. Hann segist lítið vilja tjá sig um málið að svo stöddu þar sem aðgerðir lögreglu standi enn yfir.

Aðgerðirnar, sem eru ansi umfangsmiklar, teygja anga sína víða um land. Þær voru á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Suðurnesjum og Norðurlandi og standa þær enn yfir.

Þá eru samstarfsaðilar lögreglu margir. Þær eru unnar í samvinnu við lögregluliðin á Suðurlandi, Suðurnesjum og Norðurlandi eystra, embætti ríkislögreglustjóra, Tollgæsluna, Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun, ASÍ, velferðarsvið Reykjavíkurborgar, barnaverndaryfirvöld í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði, félagsþjónustuna í Kópavogi og Hafnarfirði, heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Bjarkarhlíð.


Tengdar fréttir

„Vitum ekki hvar við verðum í nótt“

Tveir ferðamenn frá Filippseyjum eru í leit að gistingu eftir að hafa verið gert að yfirgefa Kastala guesthouse síðdegis vegna umfangsmikilla lögregluaðgerða. Lögregla hefur innsiglað gistiheimilið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×