Flugvélin hefur fengið nafnið Eysturoy eftir næst stærstu eyju Færeyja. Hún fór þegar í gærkvöldi í sitt fyrsta vöruflug með ferskan lax til Bandaríkjanna með millilendingu á Íslandi. Eftir tveggja tíma viðdvöl í Keflavík hélt hún för sinni áfram vestur um haf um tíuleytið í gærkvöldi og lenti á Newark-flugvelli við New York laust fyrir miðnætti að staðartíma.

FarCargo er dótturfélag laxeldisrisans Bakkafrosts, sem er langstærsta fyrirtæki Færeyja. Meginhlutverk þotunnar verður að flytja ferskan eldislax úr sjókvíum félagsins beint á markaði bæði austan hafs og vestan. Sérstaklega er horft til New York-svæðisins.
„Það tekur tólf daga að flytja lax til New York sjóleiðina frá Færeyjum og það er ekki ákjósanlegt fyrir gæðin í ferska laxinum að það taki svo langan tíma,“ segir Regin Jacobsen, forstjóri Bakkafrosts.

„Það er mikil eftirspurn eftir ferskum laxi í Bandaríkjunum. Með þessari nýju flugvél tekur það níu klukkustundir að koma laxinum frá Færeyjum til New York,“ segir Regin.
Með flugvélinni stefnir Bakkafrost að því að flytja um 20 prósent af afurðum félagsins í flugi. 80 prósent verða áfram flutt með skipum.
Fyrst um sinn verður þotan rekin á flugrekstrarleyfi sænska fyrirtækisins West Atlantic og er hún með sænskt skrásetningarnúmer. FarCargo stefnir síðan að því að taka sjálft við flugrekstrinum. Þegar hafa átta flugmenn verið ráðnir til starfa hjá félaginu.

Flugvélin er af gerðinni Boeing 757-200. Hún var upphaflega smíðuð árið 2001 til farþegaflugs fyrir American Airlines. FarCargo lét breyta henni í fraktvél og getur hún þannig borið 35 tonn af farmi.
Forseti Íslands kynnti sér starfsemi Bakkafrosts í heimsókn til Færeyja fyrir sjö árum:
Boeing 757-þotur hafa einnig verið nýttar í flugi Icelandair Cargo með ferskan íslenskan fisk á erlenda markaði, sem fjallað var um í þættinum Um land allt árið 2014: