Flugskeyti Húta er sagt hafa hæft skipið, sem sigldi undir fána Barbados, á tíunda tímanum í morgun að staðartíma. Samkvæmt upplýsingum frá bandarískum yfirvöldum hefur það síðan verið á reki um Adenflóa.
Árásin er ein af fjölmörgum sem Hútar hafa gert á skip sem sigla um Rauðahafið en er sú fyrsta sem áhafnarmeðlimur á skipinu lætur lífið. Með árásunum segjast Hútar aðstoða Palestínumenn í baráttunni gegn Ísraelsher.
Talsmaður Húta sagði í yfirlýsingu að áhöfn skipsins hefði hundsað ítrekaðar viðvaranir frá hersveitum Húta áður en þeir hæfðu skipið.
BBC hefur eftir breska sendiráðinu í Jemen að að mannslátin séu sorgleg en óhjákvæmileg afleiðing linnulausra eldflaugaárása á flutningaskip. Þá hefur CBS eftir embættismanni Bandaríkjahers að sex hefðu særst í árásinni.
Árásin átti sér stað í Adenflóa, um fimmtíu sjómílum suðvestan jemensku borgarinnar Aden. Í Adenflóa hafa Hútar gert umfangsmiklar árásir síðustu vikur en á laugardag bárust fréttir um að flutningaskipið Rubymar hefði sokkið eftir loftárás en engan sakaði.