Innlent

Von­góður um að stjórn­völd geti staðið við kjarnagreiðslu til UNWRA

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Ráðherra var spurður út í málið í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun.
Ráðherra var spurður út í málið í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun. arnar halldórsson

Utanríkisráðherra segist vongóður um að íslensk stjórnvöld geti staðið við kjarnagreiðslu til palestínuflóttamannaðstoðar Sameinuðu þjóðanna, UNWRA, í ljósi þeirrar vinnu sem hefur verið unnin í ráðuneytinu.

Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun. Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, beindi fyrirspurn sinni til Bjarna Benediktssonar, utanríkisráðherra, og spurði hvort þingið mætti vænta þess að hann tilkynni um framlög til palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna, UNWRA, á ný.

Nokkrir mánuðir eru síðan ráðherrann ákvað að frysta greiðslur til stofnunarinnar í kjölfar þess að fregnir bárust af því að starfsmenn hennar hafi átt aðild að árás á Ísrael þann 7. október.

„Nú er mars, nú ríkir hungursneyð og það hefur ekkert nýtt heyrst frá ráðherra og því spyr ég einfaldlega hæstvirtan ráðherra hvort við megum vænta þess að hann tilkynni um nýja og endurskoðaða afstöðu og að framlag til UNWRA verði greitt á gjalddaga,“ spurði Logi Einarsson.

Bjarni vongóður

Utanríkisráðherra sagðist vilja halda því til haga að samkvæmt samningi sem íslensk stjórnvöld höfðu áður gert við UNWRA eigi kjarnagreiðsla frá stjórnvöldum að vera innt af hendi þann fyrsta apríl.

„Ég er bara mjög vongóður um að við Íslendingar getum staðið við þessa kjarnagreiðslu í ljósi þeirrar vinnu sem unnin hefur verið í ráðuneytinu. En hitt er síðan annað mál, að hversu miklu leyti við styðjumst við aðrar stofnanir á svæðinu það sem eftir lifir ársins,“ sagði Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×