Innlent

Stakk tvo menn í Valshverfinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Árásarmaðurinn á sér sögu hjá lögreglu.
Árásarmaðurinn á sér sögu hjá lögreglu. Vísir/Vilhelm

Maður sem veittist að tveimur mönnum og stakk þá var handtekinn af lögregluþjónum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Hann hefur verið yfirheyrður í dag og standa yfirheyrslur enn yfir.

Maðurinn sem um ræðir er af erlendu bergi brotinn og á sér sögu hjá lögreglunni, samkvæmt Unnari Má Ástþórssyni, aðalvarðstjóra.

Fyrst var sagt frá hnífstungunni á vef Mbl og kom þar fram að árásin hefði átt sér stað við verslunina OK Market í Valshverfinu.

Árásin átti sér stað milli fjögur og fimm í gær. Tilefni árásarinnar liggur ekki fyrir enn og mennirnir sem voru stungnir eru ekki alvarlega særðir.

Unnar segir að yfirheyrslan muni líklega standa yfir eitthvað fram eftir degi og að í kjölfarið verði metið hvort færa eigi manninn fyrir dómara og fara fram á gæsluvarðhaldsúrskurð.

Mbl segir árásarmanninn hafa áður verið dæmdan í fangelsi hér á landi. Hann hafi verið sakfelldur fyrir brot eins og líkamsárás, húsbrot, valdstjórnarbrot og brot á sóttvarnarlögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×