DR greinir frá því að danska utanríkisráðuneytið hafi miðlað skilaboðum frá bandaríska sendiráðinu þar í landi varðandi aukna hættu á árásum á fjöldasamkomur í Moskvu um helgina. Forðast skuli staði þar sem margir koma saman, sérstaklega tónleika.
Bandaríska sendiráðið hafi einnig komið slíkum skilaboðum til sinna ríkisborgara á svæðinu litlu fyrr.
DR láðist ekki að vita hvað búi að baki þessari auknu hættu þrátt fyrir samskipti við utanríkisráðuneytið og danska sendiráðið í Moskvu. Utanríkisráðuneytið hafi sagt að hvorki danska sendiráðið né ráðuneytið sjálft geti tjáð sig frekar en það sem komi fram í tilkynningunni.
Afstýrðu hryðjuverkaárás stuttu fyrir tilkynninguna
„Bandaríska sendiráðið greinir frá því að það sé aukin hætta á árásum á stórar samkomur í Moskvu um helgina. Forðist staði þar sem er margt fólk, sérstaklega tónleika. Fylgstu með öryggisstöðunni á miðlum eða í gegnum hótelið þitt. Utanríkisráðuneytið varar gegn ferðum til Rússlands.“ Svona hljóðaði tilkynningin frá utanríkisráðuneyti Danmerkur.
Samkvæmt Reuters barst viðvörunin frá bandaríska sendiráðinu í Moskvu fáeinum tímum áður en FSB, öryggisþjónusta Rússlands, greindi frá því að hún hefði afstýrt árás sem átti að framkvæma á sýnagógu í Moskvu. Ekki liggur fyrir hvort málin séu tengd.