Fótbolti

Móðir sem barðist gegn efa­semdaröddum

Aron Guðmundsson skrifar
Það mætti með sanni segja að íslenska landsliðs- og atvinnukonan í knattspyrnu hafi brotið múra sem móðir á hæsta gæðastigi kvennaknattspyrnunnar. Hún nýtur fáheyrðs stuðnings í móðurhlutverkinu frá félagsliði sínu West Ham á Englandi. Stuðningurinn kristallast í nýrri heimildarmynd
Það mætti með sanni segja að íslenska landsliðs- og atvinnukonan í knattspyrnu hafi brotið múra sem móðir á hæsta gæðastigi kvennaknattspyrnunnar. Hún nýtur fáheyrðs stuðnings í móðurhlutverkinu frá félagsliði sínu West Ham á Englandi. Stuðningurinn kristallast í nýrri heimildarmynd Vísir/Arnar

Í heimildar­­myndinni Ómars­­son, sem kom út í gær, er at­vinnu­­konunni í knatt­­spyrnu, Dag­nýju Brynjars­dóttur, fylgt eftir á með­­göngu hennar með sitt annað barn og um leið farið yfir sögu hennar sem móðir á hæsta gæða­stigi kvennaknatt­spyrnunnar. Munurinn á upp­­lifun Dag­nýjar frá sínum tveimur með­­göngum er mikill. Efa­­semdar­­raddirnar eru nú á bak og burt.

Fyrir mánuði síðan eignuðust Dag­ný og eigin­maður hennar, Ómar Páll Sigur­bjarts­son, sitt annað barn. Strák, en fyrir eiga þau Dag­ný og Ómar saman hinn 5 ára gamla Brynjar Atla.

Dag­ný segir heimildar­myndina, sem gerð er af frum­kvæði West Ham, til marks um stuðning fé­lagsins við hana og fjöl­skylduna.

„Þetta sýnir svo vel þennan stuðning sem West Ham hefur sýnt mér í gegnum allt ferlið,“ segir Dag­ný. „Ekki bara þegar að ég er ó­létt að ganga í gegnum þessa seinni með­göngu, því stuðningurinn var einnig svo mikill þegar að ég geng til liðs við fé­lagið á sínum tíma sem móðir.

Það er aldrei auð­velt skref, þegar að maður til­kynnir vinnu­veitanda sínum að maður sé ó­léttur. Sér­stak­lega þegar að líkami minn er vinnan mín. En frá því að ég sagði þeim að ég væri ó­létt í annað sinn, í júlí á síðasta ári, hafa þeir ekki gert neitt annað en að sýna mér mikinn stuðning.“

Hafði alltaf trú á sjálfri sér

Í heimildar­myndinni Ómars­son er varpað á­huga­verðu ljósi á það hversu mikill munur er á upp­lifun Dag­nýjar á þessum tveimur með­göngum sínum. Við fáum að heyra að árið 2018, þegar að hún komst að því að hún væri ó­frísk af sínu fyrsta barni, hafi hún hringt í mömmu sína grátandi, í al­gjöru sjokki.

Upp­lifunin er allt öðru­vísi af þessari seinni með­göngu er það ekki?

„Jú. Á þeim tíma­punkti sem ég verð ó­létt af eldri syni mínum, honum Brynjari Atla, þá eru ekki mikið af mæðrum yfir höfuð að spila fót­bolta. Hvað þá er­lendis. Þá var það ekki planið á þessum tíma hjá mér og Ómari að fara að eignast barn. Þetta var því al­gjört sjokk fyrir mig. Á þessum tíma hafði Ég hafði alltaf trú á sjálfri mér. En allar efa­semdar raddirnar trufluðu mig meira í gegnum allt ferlið.“

Efasemdar raddirnar umlykjandi

Efa­semdar raddirnar sem að heyrðust utan frá á meðan að Dag­ný bar fyrsta barn undir belti voru á þá leið hvort hún yrði sami leik­maður er hún myndi snúa aftur á völlinn. Sumir héldu því fram að dagar hennar á hæsta gæða­stigi kvennaknatt­spyrnunnar væru taldir. Hún myndi aldrei aftur spila fyrir ís­lenska lands­liðið.

„Af því að auð­vitað, þegar að maður fer í gegnum allt þetta ferli með­göngunnnar, þá byrjar maður líkam­lega aftur á núll­punkti og spyr sig alveg hvort maður muni geta spilað fót­bolta á sama gæða­stigi aftur. Mun ég verða eins góð og áður. Svo eru allar þessar efa­semdar raddir í hausnum á manni á meðan. Maður reynir að tala á móti þeim en stundum fer maður að trúa þeim smá. Þetta var ó­trú­lega erfitt tíma­bil að ganga í gegnum.

Dagný Brynjarsdóttir  með eldri syni sínum, Brynjari Atla, á góðri stundu. VÍSIR/VILHELM

En nú þegar að ég varð ó­létt í seinna skiptið, sex árum seinna, þá ein­hvern veginn eru efa­semdar raddirnar á bak og burt. Ég hef ekki heyrt eða lesið um eina efa­semdar rödd. Þar er meira að segja enginn búinn að spyrja mig að því hvort ég sé að flytja aftur heim til Ís­lands þó við verjum tíma okkur hér heima þessa dagana. Það reikna allir bara ein­hvern veginn með því að ég muni fara aftur út og komi til baka inn á fót­bolta­völlinn með West Ham.

Þetta er ó­trú­lega mikill munur sem maður finnur á þessum tveimur með­göngum hvað þetta varðar en á þessum sex árum sem líða þarna á milli erum við að sjá að fleiri kven­kyns í­þrótta­menn eru orðnar mæður og hafa svo komið til baka í sína í­þrótt. Hvort sem um ræðir fót­bolta eða ein­hverja aðra grein. Þá er þetta orðið sam­þykktara í sam­fé­laginu. Fé­lögin eru farin að sýna mæðrum meiri stuðning.“

Mjög hjartnæmur stuðningur

Frá því í æsku hefur Dag­ný verið mikill stuðnings­maður West Ham. Á þeim tíma sem hún var að feta sinn veg í gegnum yngri flokkana hér heima, æfandi fót­bolta með strákum, var West Ham ekki með kvenna­lið.

Dagný Brynjarsdóttir, atvinnu- og landsliðskona í fótboltaVísir/Getty

Breyting hefur orðið þar á og náði fé­lagið að næla í ís­lensku lands­liðs­konuna árið 2021. Sann­kölluð drauma fé­lags­skipti.

Það að þú sért, sem leik­maður fé­lagsins sem þú hefur stutt frá því í æsku, að upp­lifa þennan mikla stuðning frá fé­laginu, sem á að vera sjálf­sagður en hefur kannski ekki verið það í knatt­spyrnu­heiminum, og vilja til þess að gera vel hlýtur að vera ansi hjart­næmt og mikil­vægt.

„Mjög hjart­næmt. Ef ég hefði ekki fengið þennan stuðning þá hefði það brotið í manni hjartað. Hvort sem það hefði verið hjá West Ham eða ein­hverju öðru fé­lags­liði. Ég er ó­trú­lega þakk­lát fyrir allan stuðninginn sem ég hef fundið fyrir hjá West Ham, fjöl­skyldunni minni og vinum. Þó að að endur­koman sé undir mér komin, þá þarf ég samt á stuðningnum að halda. Ég get aldrei gert þetta ein.“

Heimildarmyndina Ómarsson, sem West Ham United framleiðir og fjallar um íslensku atvinnukonuna í knattspyrnu, Dagnýju Brynjarsdóttur, má sjá hér fyrir neðan:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×