Erlent

Minnst fimm­tán drónaárásum Húta af­stýrt í nótt

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Skipinu Rubymar var sökkt af slíkri drónaárás í Rauðahafinu fyrr í mánuðinum.
Skipinu Rubymar var sökkt af slíkri drónaárás í Rauðahafinu fyrr í mánuðinum. AP/Maxar Technologies

Danska freigátan Iver Huitfeld skaut niður fjóra dróna í nótt sem Hútar sendu út til að gera árás á það. Það kom fram í tilkynningu frá danska hernum frá í morgun. Minnst fimmtán drónar gerðu atlögu að skipaumferð sunnanvert í Rauðahafinu í nótt.

Þeir voru allir skotnir niður af herskipum á svæðinu. Sune Lund, skipstjóri Iver Huitfeld, segir að atlagan hafi átt sér stað laust eftir fjögur um nótt að staðartíma.

„Laust eftir fjögur að staðartíma urðum við varir við dróna sem gerði sér leið í átt að Iver Huitfeld og nálægum skipum. Þegar við höfðum gengið úr skugga um að þeir væru óvinveittir, brugðumst við við og tókum hann niður. Á næsta klukkutíma sem leið gerðist þetta þrisvar sinnum í viðbót,“ segir hann í tilkynningu frá danska hernum.

Samkvæmt fréttaflutningi DR eru bæði skip og áhöfn heil á höldnu. Bandarísa miðlæga herstjórnin skrifar á samfélagsmiðilinn X að minnst fimmtán drónaárásum hafi verið afstýrt í nótt í Rauðahafi og Adenflóa.

DR hefur eftir Troels Lund Poulsen varnamálaráðherra að hann sé stoltur af skjótum viðbrögðum áhafnar Ivars Huitfeld.

„Við höldum áfram að vakta svæðið í samvinnu við nánustu bandamenn. Rétturinn til frjálsar siglingar er réttur sem okkur ber að vernda,“ segir hann.


Tengdar fréttir

Fyrstu mannslátin vegna árása Húta á Rauðahafi

Tveir áhafnarmeðlimir flutningaskipsins True Confidence létu lífið í eldflaugaárás Húta undan ströndum Jemen í dag. Um ræðir fyrstu mannslátin frá því að hersveitir Húta hófu að gera árásir á flutningaskip sem sigla um Rauðahafið. 

Skip sökk eftir loftárás Húta

Flutningaskipið Rubymar sökk í Rauðahafinu í gærkvöldi eftir loftárás Húta í Jemen. Skipið er það fyrsta til þess að sökkva vegna aðgerða Húta í tengslum við stríðið á Gasa. 

Olíuflutningaskip í ljósum logum eftir loftárás Húta

Breskt olíuflutningaskip stendur í ljósum logum í Adenflóa eftir að Hútar skutu eldflaug að því í gærkvöldi. Árásin er samkvæmt Hútum viðbragð við auknum árásum Breta og Bandaríkjamanna á Jemen síðastliðnar vikur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×