Þetta segir Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá rannsóknarsviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi.
Lögreglan réðst í umfangsmiklar aðgerðir víða um land í vikunni vegna málsins. Átta voru handteknir og einn sakborningur bættist við í gær. Sex voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald á fimmtudaginn fyrir héraðsdómi, og nú hefur Landsréttur staðfest þann úrskurð.
Elín Agnes segir að fórnarlömb séu á þriðja tug, bæði karlar og konur. Þrír karlar og þrjár konur eru í gæsluvarðhaldi en Elín Agnes vill ekki gefa upp hvers kyns hinir þrír sakborningarnir eru.
Nokkrum veitingastöðum, gistiheimilum og hótelum var lokað í aðgerðunum. Staðirnir koma ekki til með að opna aftur, að sögn Elínar Agnesar.
Í aðgerðunum var notast við fíkniefnahunda.
„Það var í raun formsatriði, það fundust engin fíkniefni á þessum stöðum. Samt sem áður eru ákveðnir þættir í skoðun hvað það varðar,“ bætir Elín Agnes við.
Fram hefur komið að grunur hafi verið uppi um skipulagða glæpastarfsemi um þónokkurt skeið. Spurð hvers vegna ráðist hafi verið í aðgerðir nú segir Elín Agnes:
„Það hefur tekið tíma að safna þessu saman, fá fólk að borðinu, fá hagaðila með okkur í þetta. Þetta er ekki eitthvað sem er ákveðið á einni viku, langt því frá. Hér eru gríðarlega miklar rannsóknir sem liggja að baki.“