Handbolti

Haf­dís bikar­meistari með þriðja liðinu: „Þetta er orðið svo­lítið fyndið“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hafdís Renötudóttir átti stórleik þegar Valur varð bikarmeistari í dag.
Hafdís Renötudóttir átti stórleik þegar Valur varð bikarmeistari í dag. Vísir/Hulda Margrét

Hafdís Renötudóttir átti sannkallaðan stórleik í marki Vals í dag er liðið tryggði sér sinn níunda bikarmeistaratitil í kvennaflokki með þriggja marka sigri gegn Stjörnunni, 25-22.

Hafdís varði 14 af þeim 28 skotum sem hún fékk á sig og var þar af leiðandi með 50 prósent hlutfallsvörslu. Þar af varði hún tvö víti í fimm tilraunum.

„Þetta er svo ljúft. Þetta var ógeðslega erfiður leikur og við áttum erfitt með að skora,“ sagði Hafdís í viðtali í leikslok.

„Sem betur fer var vörnin góð í seinni og þá nær maður að verja einhverja bolta og ég held að það hafi siglt þessu heim.“

Eins og Hafdís segir var sigurinn þó ekki auðsóttur.

„Leikurinn var bara í járnum og Darija [Zecevic] var geggjuð í markinu. Þetta er bara illviðráðanlegt lið að sjálfsögðu þegar þær spila vel. Þannig við bjuggumst við erfiðum leik og við fengum hann, en sem betur fer vorum við betri og náðum að sigla sigrinum heim.“

Hafdís, sem hefur verið að glíma við meiðsli undanfarið, hóf leik á bekknum, en kom inn á í fyrri hálfleik og skellti í lás.

„Ég er að stíga upp úr meiðslum þannig mögulega spilar það inn í. En svo bara kem ég inn og næ að verja einhverja bolta og er mjög sátt með það. Við fáum sigur og medalíuna. Þetta var geðveikt.“

Þá segir Hafdís að bikarmeistaratitillinn hafi mikla þýðingu fyrir sig, en hún hefur nú fagnað þessum titli með þremur mismunandi liðum.

„Þetta hafur mikla þýðingu. Nú er ég þrefaldur bikarmeistari með Fram, Stjörnunni og Val, þetta er orðið svolítið fyndið. Og deildarmeistari með öllum liðunum líka. Það er mjög sætt að vinna þennan titil með Valsstelpunum, þær eru geggjaðar. Þetta er bara geðveikt lið. Ég meina, halló,“ sagði Hafdís.

Þá segir hún erfitt að bera þennan bikarmeistaratitil við hina með hinum tveimur liðunum.

„Þetta er alltaf jafn sætt. Þetta var ekki jafn jafnt og hinir leikirnir hafa kannski verið, ég veit það ekki. Ég vann með Stjörnunni síðast og þetta er bara jafn gaman og jafn sætt. Þú ert að vinna leik og ert að vinna fyrir þessu. Það er geðveik tilfinning,“ sagði bikarmeistarinn Hafdís Renötudóttir að lokum.

Klippa: Hafdís bikarmeistari með þriðja liðinu: Þetta er orðið svolítið fyndið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×