Átta voru handteknir í umfangsmiklum aðgerðum lögreglu í síðustu viku og bættist einn sakborningur við í gær. Sex, þrír karlmenn og þrjár konur, voru úrskurðuð í gæsluvarðhald fyrir héraðsdómi á fimmtudag og staðfesti Landsréttur þann úrskurð í gær.
Elín Agnes Kristínarsdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá rannsóknarsviði, segir í samtali við fréttastofu að fórnarlömb séu á þriðja tug, bæði karlar og konur.
Nokkrum veitingastöðum, gistiheimilum og hótelum var lokað í aðgerðum og koma staðirnir ekki til með að opna aftur. Grunur hefur verið uppi um skipulagða glæpastarfsemi í tengslum við staðina um nokkurt skeið.
„Þetta auðvitað vekur ugg og að svona skipulögð glæpastarfsemi sé komin með svona ítök er það sem situr aðallega eftir,“ segir Aðalgeir Ástvaldsson, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði.
„Maður hefði kannski óskað þess að það hefði verið hægt að grípa inn í fyrr en auðvitða þekkir maður ekki alla enda málsins.“
Lögregla og ríkisskattstjóri sinna nú vinnustaðaeftirliti, þar sem einkennisklæddir fulltrúar líta við á háannatíma. Veitingamenn hafi kallað eftir því um nokkurt skeið að eftirlit verði gert skilvirkara og framkvæmt af óeinkennisklæddum mönnum í meiri ró.
„Það er klárlega mín skoðun. Þá hugsar maður það líka út frá upplifun viðskiptavinanna því þeir þurfa að bera traust og andrúmsloftið á veitingastöðum þurfum við að vernda. Við erum boðin og búin til að vera með í eftirliti sem spornar við mansali og ólöglegri atvinnustarfsemi en það er spurning að endurhugsa aðferðirnar,“ segir Aðalgeir.
Neytendasamtökin hafa lagt til að einkunn sem veitingastaðir fá hjá heilbrigðiseftirlitinu verði gerð sýnileg á stöðum til dæmis með broskallakerfi.
„Það er eitthvað se við sjáum í nágrannalöndunum okkar. Mig minnir að í London séu það þumalputtarnir og í Danmörku broskallar. Það er gott og vel. Við erum tilbúin að leggja okkar að í þeirri vinnu.“