Fótbolti

Ekki valinn í lands­liðið því hann talar ekki spænsku

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ben Brereton Díaz fagnar einu sjö marka sinna fyrir síleska landsliðið.
Ben Brereton Díaz fagnar einu sjö marka sinna fyrir síleska landsliðið. getty/Javier Torres-Pool

Ben Brereton Díaz, leikmaður Sheffield United, þarf að læra spænsku ef hann vill verða valinn í landslið Síle á nýjan leik.

Díaz var ekki valinn í síleska landsliðið fyrir leiki þess gegn Albaníu og Frakklandi síðar í þessum mánuði. Landsliðsþjálfarinn Ricardo Gareca sagði að takmörkuð færni Díaz í spænsku spili inn í ákvörðunina.

Hinn 24 ára Díaz er fæddur í Stoke á Englandi en getur spilað fyrir landslið Síle þar sem móðir hans er frá landinu. Díaz hefur leikið 27 landsleiki fyrir Síle og skorað sjö mörk. Til að leikirnir og mörkin verði fleiri þar hann að gjöra svo vel að læra spænsku.

„Ég myndi vilja að hann myndi læra spænsku. Ég held að það sé mikilvægt. Hann var valinn í liðið okkar fyrir Suður-Ameríkukeppnina fyrir tveimur árum og hefur haft nægan tíma til að læra að tala spænsku,“ sagði Gareca.

„Þetta er eitthvað sem ég hef sagt honum, að ég vilji að hann tali spænsku. Það er nauðsynlegt upp á samskiptin að gera, við samherja, mig, þjálfarateymið, fólkið og fjölmiðlana.“

Eftir góð ár hjá Blackburn Rovers gekk Díaz í raðir Villarreal síðasta sumar. Hann var svo lánaður til Sheffield United í janúar. Díaz hefur skorað tvö mörk fyrir botnlið ensku úrvalsdeildarinnar síðan hann kom þangað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×