Innlent

Hætta leit að bíl í Þing­valla­vatni

Jón Þór Stefánsson skrifar
Leitað var við Þingvallavatn. Myndin er úr safni.
Leitað var við Þingvallavatn. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Viðbragðsaðilar hafa ákveðið að hætta leit við vestanvert Þingvallavatn, en lögreglu barst tilkynning um klukkan ellefu í dag um að bíll hefði farið ofan í og niður um ís.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi sem var yfir aðgerðum á vettvangi.

„Björgunarsveitir, slökkvilið, sjúkraflutningmenn og þyrla Landhelgisgæslunnar voru boðaðar til leitar og hugsanlegrar björgunar. Einnig var kafarasveit sérsveitar ríkislögreglustjóra sett í viðbragðsstöðu,“ segir í tilkynningunni.

„Viðbragðsaðilar á vettvangi eru búnir að skoða svæðið vel og hefur verið tekin ákvörðun um að hætta leit þar sem engin ummerki sjást á vatninu.“

Fram kemur að aðstæður til leitar úr lofti hafi verið góðar og svæðið skoðað vel úr þyrlu og með drónum. Þar að auki hafi bakkar vatnsins verið skoðaðir vel.

Þegar fréttastofa náði síðast tali af Jóni Þór Víglundssyni, upplýsingafulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sagði hann að ekki hefðu fundist nein ummerki um að bíll hefði farið ofan í vatnið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×