„Það koma einhverjar loðnufréttir nærri daglega en engar sem við höfum metið vera af þeirri stærðargráðu að nauðsynlegt væri að senda Heimaey af stað til að kanna,“ segir fiskifræðingurinn Guðmundur Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs hjá Hafrannsóknastofnun.
Fyrir helgi bárust fréttir frá togurum á Vestfjarðamiðum og kannaði áhöfnin á Örfirisey þá loðnu. Niðurstaðan var að þar væri að mestu leyti ungloðna á ferð og því ekki vesturganga hrygningarloðnu. Einnig hafa borist fregnir af loðnu undan Húnaflóa sem og undan Suðausturlandi. Vísindamenn Hafrannsóknastofnunar hafa til þessa ekki séð ástæðu til að bregðast við.
„Við gerum ráð fyrir að Heimaey verði til taks allavega út þessa viku en munum endurmeta stöðuna undir lok vikunnar ef ekkert gerist þangað til,“ segir Guðmundur Óskarsson.
Það var einmitt á þessum sama tíma í fyrra sem loðnuvertíðin stóð sem hæst. Flotinn var þá að mokveiða loðnu í norðanverðum Faxaflóa og út af Reykjanesi. Hún var þá komin að hrygningu og þar með hrognafull og í sínu verðmætasta formi.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 í beinni útsendingu frá Akranesi fyrir ári: