Fótbolti

Al Nassr úr leik eftir klúður ársins hjá Ron­aldo

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ronaldo klikkaði fyrir opnu marki.
Ronaldo klikkaði fyrir opnu marki. Yasser Bakhsh/Getty Images

Portúgalski framherjinn Cristiano Ronaldo átti eitt af klúðrum ársins þegar Al Nassr féll úr leik í Meistaradeild Asíu gegn lærisveinum Hernán Crespo í Al Ain frá Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum í gær, mánudag.

Al Ain vann fyrri leik liðanna á heimavelli og því þurftu Ronaldo og félagar að vinna með tveggja marka mun til að komast áfram þegar liðin mættust í Sádi-Arabíu í gær. Gestirnir komust hins vegar tveimur mörkum yfir áður en heimamenn svöruðu með þremur mörkum.

Það var hins vegar í stöðunni 2-2, þegar slétt klukkustund var liðin, sem Ronaldo fékk besta færi ársins. Boltinn féll þá til hans eftir að markvörður Al Ain hafði mistekist að halda lausu skoti úr teignum. Á einhvern ótrúlegan hátt tókst þessari gömlu markamaskínu ekki að hitta markið og staðan því enn 2-2.

Brasilíski bakvörðurinn Alex Telles kom Al Nassr á endanum 3-2 yfir og þar sem mörkin urðu ekki fleiri í venjulegum leiktíma þurfti að framlengja. Gestirnir jöfnuðu í 3-3 en Al Nassr fékk vítaspyrnu í blálokin sem Ronaldo skoraði úr.

Þar sem staðan var 4-3 eftir framlengingu og 4-4 samanlagt þurfti vítaspyrnukeppni til að útkljá hvort liðið kæmist áfram. Þar reyndust gestirnir sterkari en þeir skoruðu úr þremur spyrnum á meðan Ronaldo var sá eini sem skoraði úr þeim fjórum spyrnum sem Al Nassr tók. Al Ain er því komið áfram í Meistaradeild Asíu á meðan Al Nassr situr eftir með sárt ennið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×