Fótbolti

Telja að sekt UEFA sé brot á tjáningar­frelsinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn SK Brann settu sinn svip á leiki liðsins í Meistaradeildinni.
Stuðningsmenn SK Brann settu sinn svip á leiki liðsins í Meistaradeildinni. Getty/Alex Pantling

Norska knattspyrnufélagið Brann ætlar að ekki að taka fimm þúsund evra sekt Knattspyrnusambands Evrópu þegjandi og hljóðalaust.

Forráðamenn Brann hafa nefnilega áfrýjað fyrrnefndri sekt UEFA sem samsvarar 754 þúsund íslenskum krónum.

Brann segir frá áfrýjun sinni á heimasíðunni þar sem félagið vill að málinu verði vísað frá.

Félagið var sektað fyrir köll stuðningsmanna kvennaliðs félagsins á leik á móti St. Pölten í Meistaradeildinni.

TV 2 fékk að vita frá aganefnd UEFA að sektin hafi komið til vegna þess að stuðningsfólkið kallaði „UEFA-mafían“ á meðan leiknum stóð á Åsane Arena en hann var spilaður 31. janúar síðastliðinn.

Þessi köll fóru fyrir brjóstið á forystu UEFA en Brann heldur því fram að ekki sé hægt að halda því fram að þarna séu um ögrandi eða móðgandi köll að ræða.

„Þetta er eitthvað sem fær blóðið til sjóða hjá stuðningsfólkinu okkar. Þetta er árás á tjáningarfrelsið,“ sagði Erlend Vågane, aðalmaðurinn hjá Brann-Bataljonen, stuðningssveitar félagsins, í samtali við TV2.

Brann stelpurnar unnu leikinn 2-1 og það tryggði liðinu leik á móti Barcelona í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×