Fótbolti

Ó­líkt gengi hjá ný­liðunum í Lengju­bikarnum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
FH-konur eiga enn góða mögulega á því að komast í undanúrslit Lengjubikarsins.
FH-konur eiga enn góða mögulega á því að komast í undanúrslit Lengjubikarsins. Vísir/Hulda Margrét

Víkingur Reykjavík og Fylkir fóru upp síðasta haust og spila í Bestu deild kvenna í fótbolta í sumar. Liðin spiluðu í Lengjubikarnum í kvöld en aðeins annað þeirra fagnaði sigri.

Fylkir vann 5-3 sigur á Lengjudeildarliði Selfoss. Guðrún Karítas Sigurðardóttir skoraði tvö mörk en hin mörkin skoruðu þær Klara Mist Karlsdóttir, Eva Rut Ásþórsdóttir og Tinna Harðardóttir.

Unnur Dóra Bergsdóttir, Elsa Katrín Stefánsdóttir og Auður Helga Halldórsdóttir skoruðu fyrir Selfoss.

Fylkiskonur fóru á kostum í fyrri hálfleiknum og voru 4-1 yfir eftir hann. Guðrún Karítas skoraði bæði mörkin sín fyrir hlé.

Selfoss minnkaði muninn í 4-3 áður en Fylkir skoraði fimmta markið.

FH vann 4-2 sigur á Víkingum í hinum leik kvöldsins. Selma Sól Sigurjónsdóttir skorað tvö síðustu mörk FH-liðsins en hin mörkin skoruðu þær Berglind Freyja Hlynsdóttir og Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir. Bergdís Sveinsdóttir og Nadía Atladóttir skoruðu mörk Víkingsliðsins.

Víkingsliðið hefur þar með fengið á sig sautján mörk í fimm leikjum í Lengjubikarnum.

Með sigrinum þá komst FH upp í annað sætið í riðlinum og það skilar liðinu sæti í undanúrslitum keppninnar svo framarlega sem Stjarnan vinnur ekki Þór/KA á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×