Innlent

Vist­maður á fangelsinu Sogni fannst látinn

Jón Þór Stefánsson skrifar
Maðurinn var 73 ára gamall.
Maðurinn var 73 ára gamall.

Vistmaður á fangelsinu Sogni í Ölfusi fannst látinn seint síðastliðið fimmtudagskvöld. Ekki er talið að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti. Þrátt fyrir það rannsakar lögregla málið. Þetta staðfestir Páll E. Winkel fangelsismálastjóri í samtali við fréttastofu.

Hann segir að í kjölfar andlátsins hafi föngum og fangavörðum verið boðið upp á viðeigandi aðstoð.

„Þetta er ávallt erfitt þegar svona kemur upp í fangelsum, eins og annars staðar. Þeir sem að þessu máli koma hafa fengið aðhlynningu eins og nauðsynlegt er,“ segir Páll sem tekur fram að allir sem komu að málinu hafi staðið sig vel.

Morgunblaðið greindi fyrst frá andlátinu. Samkvæmt heimildum blaðsins hlaut hinn látni fjórtán ára fangelsisdóm í Landsrétti árið 2019 fyrir að hafa ráðið bróður sínum bana í mars ári áður.

Hinn látni hét Valur Lýðsson og var 73 ára gamall. Héraðsdómur hafði dæmt hann í sjö ára fangelsi, en Landsréttur þyngdi dóminn í fjórtán ár, vegna manndrápsins sem átti sér stað á bæ í Árnessýslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×