Erlent

Segja Rafah síðasta virki Hamas og eru stað­ráðnir í að fara inn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Netanyahu segist staðráðinn í að ráðast inn í Rafah en hefur þó samþykkt að senda fulltrúa til Washington til að ræða fyrirætlanirnar.
Netanyahu segist staðráðinn í að ráðast inn í Rafah en hefur þó samþykkt að senda fulltrúa til Washington til að ræða fyrirætlanirnar. AP/Leo Correa

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, ávarpaði þingmenn í gær og sagðist enn staðráðinn í því að ráðast inn í Rafah þrátt fyrir viðvaranir Bandaríkjanna og fleiri ríkja.

Netanyahu sagðist hafa gert Joe Biden Bandaríkjaforseta grein fyrir því að Ísraelsmenn væru staðráðnir í að ljúka því sem þeir hefðu hafið, þar á meðal að útrýma þeim bardagasveitum Hamas sem hefðust við í Rafah.

Það væri ekki hægt að gera nema með því að fara inn á svæðið.

Netanyahu og Biden ræddu saman í síma á mánudag og er Biden sagður hafa ítrekað við Netanyahu að það væru mistök að ráðast inn á Rafah; Ísraelsmenn gætu náð markmiðum sínum með öðrum leiðum og þá væri hætta á að þeir einangruðust algjörlega á alþjóðasviðinu ef aðgerðirnar myndu valda frekara mannfalli og neyð.

Forsætisráðherrann sagðist bíða eftir tillögum frá Bandaríkjunum um hvernig mætti verja almenna borgara á Rafah, af virðingu við Biden. Hann sagðist hins vegar ekki sjá neina aðra leið til að útrýma Hamas en að ráðast gegn bardagasveitunum þar sem þær héldu sig.

Yfirvöld í Ísrael segja Rafah nú eina svæðið á Gasa þar sem umsvif Hamas eru veruleg en greint hefur verið frá því í erlendum miðlum að þar sé að finna fjórar bardagasveitir samtakanna. Á sama tíma dvelur 1,5 milljón manna þar, eftir að hafa flúið árásir Ísraels annars staðar á svæðinu.

Hvíta húsið hefur ítrekað stuðning sinn við Ísrael og aðgerðir Ísraelsmanna gegn Hamas en segist ekki munu styðja innrás í Rafah nema að Ísraelsmenn leggi fram trúverðuga áætlun um hvernig þeir hyggjast ná markmiðum sínum án þess að það komi niður á almennum borgurum.

Von er á sendinefnd háttsettra embættismanna frá Ísrael til Washington í byrjun næstu viku, þar sem fundað verður um áætlanir Ísraelsmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×