Rúv greindi fyrst frá og segir að samkvæmt heimildum séu þeir sem sleppt var úr haldi bókari hjá félagi athafnamannsins Davíðs Viðarsonar og faðir hennar.
Í samtali við fréttastofu staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri deild, að tveimur hafi verið sleppt en vill ekki greina nánar frá því hverjir það eru. Hann segir að hlutur fólksins sé upplýstur að því marki að ekki þurfi að halda þeim lengur.
Við höldum engum lengur í gæsluvarðhaldi en við þurfum.
Í frétt Rúv er tekið fram að ekki sé útilokað að fleiri losni úr haldi í dag. Aðspurður um þetta segir Grímur að gæsluvarðhaldsúrskurður yfir þeim sem séu nú eftir í haldi gildi fram á þriðjudag. Það sé endurmetið á hverjum degi hversu lengi þurfi að halda fólkinu.
Níu hafa réttarstöðu sakbornings í málinu og að sögn Gríms hefur engin breyting orðið í þeim efnum. Fram hefur komið í máli Gríms að rökstuddur grunur sé hjá lögreglu um vinnumansal, peningaþvætti og skipulagða glæpastarfsemi.
Þá segir hann rannsókn miða vel en mikil vinna sé framundan við að fara yfir gögn sem voru handlögð í húsleitum og í aðgerðum lögreglu þann þann 5. mars.
„Þetta er óskaplega mikið af gögnum, bæði skilvirk og rafræn. Við erum ekki næstum því búin að fara yfir þetta allt, það er mikið verk framundan í því áfram.“