Fyrr í dag var greint frá því að hraunrásin í eldgosinu á Reykjanesskaga hefði skriðið kröftuglega fram og þrýsti á varnargarðana fyrir framan Grindavík. Varnargarðateymið hefur brugðist við því og er byrjað að vinna við að hækka þá.
„Þetta framhlaup keyrði á varnargarðana aftur og þeir virkuðu mjög vel og leiddu þetta til sitt hvorrar handar, til vesturs og austurs. Þar með er hraunið orðið jafnhátt þeim. Þá er næsta viðbragða að auka í það þarna uppi á horninu þar sem þeir mætast fyrir ofan bæinn,“ segir Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu.
Á korti Veðurstofunnar má sjá varnargarðana norðan og norðaustan við Grindavík sem mætast í sirka níutíu gráðu horni. Hraunið er byrjað að þrýsta á varnargarðana og því þarf að hækka þá.

„Það lagði af stað í morgun þykk apalhraunstunga sem klofnaði fallega á þessu og fór sitt hvorum megin við, aðallega austan við. Þá er þetta hraun búið að ná þessari hæð. Þegar það kemur eitthvað ofan á þetta þá þurfum við að hækka garðana,“ segir hann.
Jón Haukur segir vinnuna við að hækka varnargarðana þegar hafna. Fyrst byrji þeir á að laga aðgengi að görðunum og svo hækka þeir sjálfa garðana. „Við byrjum á að gera vegi að þessu, byrjum á að gera leiðir og svo byggir maður sig upp,“ segir hann.
„Þetta er hafið og er viðbragð við þessu en ekkert panik, bara unnið í rólegheitum. Þetta er búið að taka á sig þrisvar sinnum hraun. Þetta er ekki snjór sem bráðnar,“ segir hann að lokum.