Bankaráð hefur svarað bréfi Bankasýslunnar frá því á mánudag þar sem óskað var eftir upplýsingum um skuldbindandi tilboð bankans um kaup af Kviku banka á TM.
Bankaráð segist í svari sínu hafa um nokkurt skeið haft áhuga á að bæta tryggingum við þjónustuframboð bankans. Frá miðju ári 2023 hafi bankaráð átt frumkvæði að samskiptum við Bankasýsluna þar sem fram hafi komið áhugi bankaráðs á tryggingamarkaðnum og eftir atvikum kaupum á TM. Samskiptin hafa farið fram í tölvupóstum, á fundum og með símtölum.
„Í tölvupósti frá formanni bankaráðs 11. júlí 2023 til Bankasýslunnar var greint frá því að bankinn hefði haft samband við Kviku og lýst yfir áhuga bankans á að kaupa TM. Bankasýslan svaraði tölvupóstinum samdægurs án athugasemda varðandi kaupin,“ segir í svari bankaráðs. Formaður bankaráðs er Helga Björk Eiríksdóttir.
Formlegt söluferli á TM hafi hafist 17. nóvember 2023. Bankaráð hafi haft samband við Bankasýsluna rúmum mánuði síðar.
„Þann 20. desember 2023 var Bankasýslan upplýst í símtali um að bankinn hefði skilað inn óskuldbindandi tilboði í TM. Í kjölfarið tók bankinn þátt í ferli sem lauk með því að bankinn lagði fram skuldbindandi tilboð í félagið þann 15. mars 2024. Þann 17. mars var Bankasýslan upplýst um að Kvika hefði samþykkt skuldbindandi tilboð bankans,“ segir í svari bankasýslunnar.
Í bréfi Jóns Gunnars Jónssonar forstjóra Bankasýslunnar til fjármálaráðherra á dögunum sagði að Helga Björk teldi sig hafa minnst á áhuga Landsbankans að taka þátt í söluferlinu í óformlegu símtali til Tryggva Pálssonar, stjórnarformanns Bankasýslunnar, í desember. Tilefni símtalsins hafi þó verið launauppbót starfsmanna.
Jón Gunnar sagði í bréfinu að engar formlegar upplýsingar hefðu á nokkrum tímapunkti borist Bankasýslunni um þátttöku Landsbankans í söluferlinu.
Bankaráð segir Bankasýsluna á móti aldrei hafa sett fram athugasemdir eða óskað eftir frekari upplýsingar eða gögnum frá bankaráði þótt Jón Gunnar og félagar hjá Bankasýslunni hafi vitað af óskuldbindandi tilboði í tæpa þrjá mánuði.
Fréttin hefur verið uppfærð. Í fyrri útgáfu sagði að óformlegt símtal Helgu hefði verið til forstjóra Bankasýslunnar en hið rétta er að símtalið var til stjórnarformanns Bankasýslunnar.