Leik lokið: Þór/KA - Breiða­blik 3-6 | Blikar í úr­slit eftir markaveislu

Árni Gísli Magnússon skrifar
Agla María Albertsdóttir í leik með Breiðablik
Agla María Albertsdóttir í leik með Breiðablik Vísir/Hulda Margrét

Breiðablik tryggði sig í úrslit Lengjubikars kvenna eftir 6-3 sigur á Þór/KA í Boganum á Akureyri í dag. Heimakonur leiddu 2-1 í hálfleik en allt annað var uppi á teningnum í þeim seinni þar sem ferskir Blikar skoruðu fimm mörk og flugu áfram. Annað hvort Valur eða Stjarnan verður andstæðingur Breiðabliks í úrslitlaleiknum.

Þór/KA byrjaði leikinn betur og gekk boltinn betur innan liðsins en hjá gestunum frá Kópavogi. Fyrsta alvöru færi leiksins kom eftir 20 mínútur þegar Karen María Sigurgeirsdóttir átti fast skot að marki eftir undirbúning frá Söndu Maríu en Telma Ívarsdóttir í marki Blika sá við henni.

Tveimur mínútur síðar leit fyrsta mark dagsins ljós. Blikar töpuðu boltanum inni á eigin vallarhelmningi og í þann mund brunaði Lara Ivanusa af stað með boltann og lagði hann til vinstri á Söndru Maríu sem var komin í dauðafæri og átti fast skot með vinstri og boltinn söng í fjærhorninu.

Adam var þó ekki lengi í paradísinni frægu því rúmum tveimur mínútum síðar kom jöfnunarmark Blika. Agla María tók hornspyrnu inn í teiginn þar sem Barbára Sól náði kröftugum skalla í átt að marki og hafði boltinn viðkomu í varnarmanni áður en hann fór í netið.

Eftir mörkin virtist Breiðablik finna annan gír og spilamennska liðisins bættist til muna.

Undir lok fyrri hálfleiks var Sandra María aftur á ferðinni og skoraði mark sem var skuggalega líkt fyrra marki hennar. Aftur fékk Lara Ivanusa boltann á vallarhelmingi Blika og keyrði af stað og lagði hann til vinstri á Söndru sem skoraði með góðu vinstrifótar skoti í fjærhornið. 2-1 í hálfleik Þór/KA í vil.

Síðari hálfleikur var ekki nema þriggja mínútna gamall þegar Blikar höfðu jafnað. Agla María fékk boltann inni í teig eftir lélega hreinsun heimakvenna, kom inn á völlinn og lagði boltann laglega í fjærhornið.

Á 55. mínútu skoraði Vigdís Lilja Kristinsdóttir auðvelt mark eftir flott samspil við Andreu Rut Bjarnadóttr og kom Blikum í 3-2 forystu.

Bæði lið héldu áfram að sækja og leikurinn var opinn og skemmtilegur en áfram voru það gestirnir sem opnuðu vörn andstæðinganna upp á gátt sem gerðu þeim þó oft full auðvelt fyrir.

Varamaðurinn Anna Nurmi bætti við fjórða marki Blika á 66. mínútu eftir hornspyrnu frá Öglu Maríu þegar hún stangaði boltann í markið óvölduð.

Áfram hélt Agla María að gera norðankonun lífið leitt en á 74. mínútu sendi hún boltann fyrir markið þar sem Birta Georgsdóttir var mætt til að skalla boltann í netið og má aftur setja spurningamerki við varnarleik Þór/KA.

Á síðustu mínútu venjulegs leiktíma átti Edith Kristín laflausa sendingu meðfram jörðinni inn á teig Þór/KA og á einhvern ótrúlegan hátt barst boltinn alla leið til Lífar Joostdóttur sem skaut í varnarmann og fékk boltann aftur fyrir opnu marki og skoraði. Varnarleikurinn í molum hjá heimakonum og staðan orðin 6-2.

Þór/KA náði að laga stöðuna í uppbótartíma þegar Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir skallaði boltann í netið á fjærstönginni eftir hornspyrnu frá Kareni Maríu.

Lokatölur 6-3 í leik sem Breiðablik hreinlega gekk frá í seinni hálfleik.

Af hverju vann Breiðablik?

Blikar skora sex mörk sem alla jafnan nægir til að vinna fótboltaleiki. Þær nýttu færin sín vel í síðari hálfleik en þeim var gert full auðvelt fyrir á köflum.

Hverjar stóðu upp úr?

Agla María var besti leikmaður vallarsins í dag. Hún skoraði eitt mark og lagði upp þrjú önnur.

Sóknarleikur Blika gekk vel og sex mismunandi markaskorarar litu dagsins ljós. Þær Andrea Rut Bjarnadóttir og Birta Georgsdóttir komust báðar á blað og voru virkilega hætttulegar fram á við.

Hjá Þór/KA skoraði Sandra María tvö mörk en hún er alltaf helsta ógn liðsins. Lara Ivanusa lagði upp bæði mörk Söndru og var virkilega vinnusöm í vörn og sókn.

Karen María Sigurgeirsdóttir átti fínan leik og lagði upp þriðja markið.

Hvað gekk illa?

Seinni hálfleikurinn hjá Þór/KA gekk mjög illa og nokkur mörk Blika voru alltof auðveld

Hvað gerist næst?

Þór/KA er úr leik úr Lengjubikarnum í ár en mæta Val sunnan heiða í fyrstu umferð Bestu deilarinnar þann 21. apríl.

Breiðablik mætir annað hvort Val eða Stjörnunni í úrslitaleik Lengjubikarsins sem fer fram laugardaginn 30 mars kl. 16:00, allavega þangað til annað kemur í ljós.

Breiðablik mætir svo Keflavík á heimavelli í fyrstu umferð Bestu deildarinnar 22. apríl.

„Á endanum komu gæði okkar í ljós“

Nik Chamberlain á hliðarlínunni með Þrótti síðasta sumar en hann var sjö ár hjá Þrótti áður en hann söðlaði um síðasta haust og tók við BlikumVísir/Diego

Nik Chamberlain, þjálfari Breiðabliks, var kátur í bragði eftir að lið hans tryggði sig í úrslit Lengjubikarsins eftir 6-3 sigur á Þór/KA á Akureyri.

„Frábær leikur fyrir hlutlausa aðila, níu mörk og mikill hraði í leiknum. Fyrstu 15 mínúturnar voru eins og ég bjóst við, við áttum erfitt með að komast inn í leikinn og þær komu á okkur af fullum krafti og áttu sennilega skilið að vera yfir í hálfleik. Í seinni hálfleik vildum við vera aðeins rólegri, spila boltanum innan liðsins þegar við getum og spilað einfalt þegar við getum eins og við gerðum og á endanum komu gæði okkar í ljós.“

„Þannig heilt yfir er ég ánægður með getu liðsins að koma til baka eftir að hafa verið undir í hálfleik, sérstaklega hérna inni í Boganum, þannig ég er mjög ánægður með leikmennina.”

Þór/KA var betri aðilinn fram að fyrsta marki leiksins og leiddi hálfleik. Lið Blika koma talsvert öflugra til leiks í síðari hálfleik. Hvaða breytingar gerði Nik?

„Í gerðum í sjálfu sér engar breytingar, fyrir utan auðvitað að skipta Barbáru (Sól Gísladóttur) útaf sem meiddist og Anna (Nurmi) kom inn í staðinn. Við gerðum bara öllum ljóst hvernig við ætluðum að mæta þeim þegar Sandra fékk boltann í fyrsta skipti og Anna var strax mætt í bakið á henni og leyfði henni ekki að snúa og við skoruðum í kjölfarið úr skyndisókninni.“

„Í fyrri hálfleik gáfum við andstæðingnum of mikinn tíma til að snúa og athafna sig sem olli okkur vandræðum þannig við vorum aggressívari varnarlega í seinni hálfleik.“

Breiðablik nýtti skiptingarnar vel í dag og leikmenn sem komu af bekknum stóðu sig vel og komust á blað.

„Við viljum einmitt gefa ungu leikmönnunum okkar tækfæri og ég held að það hafi sex uppaldir leikmenn frá Breiðablik klárað leikinn og nokkur komu einnig af velli. Líf (Joosdóttir) skoraði sitt fyrsta mark og það er gott að sjá að þessir leikmenn geta gert sig gildandi og eru nógu góðar til að fá tækifæri og þær munu fá tækfæri.“

Hvað getur Blikaliðið tekið úr þessum leik og inn í Bestu deildina sem hefst eftir tæpan mánuð?

„Skora mörk“, svaraði Nik snögglega og brosti áður en hann hélt áfram: „Við þurfum að vinna í hlutum varnarlega en ég er mjög ánægður að koma inn í Bogann og vinna Þór/KA, það er mjög erfiður staður að koma á, að koma hingað og skora sex mörk er mjög gott en við getum vonandi klárað þetta mót vel með því að vinna það.“

Það á eftir að ráðast hvort Breiðablik mætir Val eða Stjörnunni í úrslitum. Er einhver óska mótherji?

„Nei, bæði lið munu vera erfið, við höfum ekki enn spilað við Stjörnuna á undurbúningstímabilinu svo það væri gaman að mæta þeim en að öðru leyti verður þetta bara að koma ljós. Það verður áhugavert hvenær leikurinn fer fram því upphaflegi leiktíminn átti að vera á miðvikudaginn kemur en nú er hann settur á laugardaginn. Ég er búinn að gefa stelpunum frí um páskana svo einhverjar fara í burtu þannig ég hef ekki hugmynd um hvenær við spilum leikinn en við munum eiga við það þegar að því kemur.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira