Nýtt hættumat tók gildi klukkan þrjú í dag og gildir til klukkan þrjú á mánudaginn. Hætta á gasmengun er talin meiri á öllum öryggissvæðum við eldstöðvarnar en undanfarna daga.
Í nýrri uppfærslu á vef Veðurstofu íslands segir að eldvirkni við Sundhnúk hafi haldist stöðug milli daga. Lítil sem engin skjálftavirkni sé í kvikuganginum eða nágrenni hans og það bendi til þess að kvika sé ekki að safnast í kvikuhólfinu undir Svartsengi, heldur renni hún beint út um gosopin.
Talið er að mælingar næstu daga muni leiða það betur í ljós.
„Hætta af völdum gasmengunar er metin meiri á öllum svæðum m.v. síðastliðna daga. Það er vegna veðurspár næstu daga og hærri mældra gilda á flæði brennisteinsdíoxíð (SO2) frá gígunum og hraunbreiðunni nú en áður,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Svæðin sem um ræðir má sjá á myndinni frá Veðurstofunni hér að neðan.
