Erlent

Flóttamannaaðstoðinni meinað að koma birgðum til hrjáðra

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Forsvarsmenn samtakanna segjast ekki hafa fengið neinn rökstuðning fyrir ákvörðuninni.
Forsvarsmenn samtakanna segjast ekki hafa fengið neinn rökstuðning fyrir ákvörðuninni. AP/Fatima Shbair

Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna hefur verið meinað af ísraelskum yfirvöldum að færa sveltandi fólki á norðanverðu Gazasvæðinu matvæli. Þar er mesta hættan á hungursneyð um þessar mundir.

Philippe Lazzarini, yfirmaður flóttamannaaðstoðarinnar, birti í dag færslu á miðilinn X þar sem hann segir það vera óforskammanlegt að ísraelsk yfirvöld skuli ekki hleypa birgðum inn á svæðið.

„Þetta er svívirðilegt og er viljandi gert til að hindra björgunaraðstoð á meðan hungursneyð af mannavöldum stendur yfir. Þessum hömlum verður að aflétta,“ skrifar Philippe.

Juliette Touma, talskona flóttamannaaðstoðarinnar, segir fulltrúa ísraelshers hafa staðfest þetta á fundi í dag. Hún segist ekki hafa fengið neinn rökstuðning.

Martin Griffiths, framkvæmdastjóri mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum segir að flóttamannaaðstoðin sé lífæð mannúðarstarfsins á svæðinu og að Ísraelsmenn verði að afnema hömlurnar umsvifalaust.

Að mati sérfræðinga á vegum Sameinuðu þjóðanna bíður sultur yfir íbúum norðanverðs Gasasvæðisins ekki seinna en í maí ef ekki verður gripið inn í. Að sögn Juliette Touma hefur flóttamannaaðstoðinni ekki tekist að koma matarbirgðum til norðanverðs svæðisins síðan 29. janúar síðastliðins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×