Þrátt fyrir að Ríki íslam í Khorasan (ISKP) hafi lýst hroðaverkinu á hendur sér og birt myndskeið því til stuðnings, hafa ráðamenn í Rússlandi freistað þess að bendla Úkraínu við árásina.
Nú síðast steig María Zakharova, talsmaður utanríkisráðuneytis Rússlands, fram og sagðist í viðtali við dagblaðið Komsomolskaya Pravda vilja beina þeirri spurningu til Bandaríkjamanna hvort þeir væru vissir um að Ríki íslam hefði staðið að baki hryðjuverkinu eða hvort þeir vildu endurskoða þá niðurstöðu.
Zakharova sakaði Bandaríkjamenn, sem hafa fullyrt að Ríki íslam hafi staðið að baki árásinni, um að gera samtökin að strámanni til að beina athyglinni frá „skjólstæðingi“ sínum í Kænugarði.
Ríki íslam hafa löngum notað árásir á skotmörk í Evrópu og víðar til að vekja bæði ótta og athygli. Þá er árásunum einnig ætlað að hvetja stuðningsmenn til dáða og aðra til að ganga lið liðs við samtökin.

Rússar hafa gert ýmislegt til að koma sér í ónáðina hjá samtökunum, þar má meðal annars nefna stuðning þeirra við stjórn Bashar al-Assad í Sýrlandi og Talíbana í Afganistan. Þá á Ríki íslam í viðvarandi stríði gegn kristnum almennt og meintum meingjörðum þeirra gagnvart múslimum síðustu árhundruð.
Vladimir Pútín Rússlandsforseti hefur hótað hefndum fyrir hryðjuverkaárásina en það er óvíst hvaða mynd þær munu taka á meðan Rússar virðast eiga erfitt með að ákveða sig hverjum er um að kenna.
Hitt þykir víst að þeir fjórir sem voru handteknir og færðir fyrir dómara í gær munu ekki eiga sjö dagana sæla í gæsluvarðhaldi en það mátti augljóslega sjá í dómsal í gær að þeir höfðu fengið illa meðferð.
Þá hefur myndskeiðum verið dreift á samfélagsmiðlum sem virðast sýna lögreglu ganga í skrokk á mönnunum. Á einu myndskeiðinu sést hvernig eyrað er skorið af einum og stungið upp í hann og á öðru hvernig rafbyssa er notuð á kynfæri annars.