Tilkynnt var um það sunnudaginn 17. mars að Kvika banki hafi samþykkt skuldbindandi kauptilboð Landsbankans í allt hlutafé TM trygginga hf. sama dag. Strax í kjölfarið lýsti Bankasýsla ríkisins yfir undrun á þessum fregnum og fullyrti að Bankasýslan, sem fer með eignarhlut ríkisins í bankanum, hafi ekki verið upplýst formlega um að bankinn hafi gert tilboð í TM.
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, lýsti því í bréfi sem hann sendi Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, mánudaginn 18. mars að formaður bankaráðs Landsbankans hafi síðastliðið sumar upplýst Bankasýsluna um áhuga bankans á TM en ekkert hafi orðið úr þeim viðleitunum.
Engar frekari upplýsingar hafi borist um þátttöku Landsbankans í söluferlinu, sem hófst formlega hjá Kviku banka 17. nóvember síðastliðinn.
„Formaður bankaráðs Landsbankans telur sig hafa minnst á endurvakinn áhuga Landsbankans á að taka þátt í söluferlinu. Það á að hafa komið fram í óformlegu símtali til stjórnarformanns BR vegna launauppbótar starfsmanna í desember 2023, sem þegar hafði verið ákveðin,“ sagði í bréfi Jóns Gunnars til Þórdísar Kolbrúnar.
Síðastliðinn föstudag, 22. mars, svaraði bankaráð Landsbankans Bankasýslunni og sagði upplýsingagjöf við kaupferlið hafa verið fullnægjandi. Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbankans, sagðist hafa í símtali við Tryggva Pálsson, stjórnarformann Bankasýslunnar, þann 20. desember síðastliðinn upplýst hann um að Landsbankinn hafi lagt fram óskuldbindandi tilboð í TM tryggingar.
„Við erum með þetta allt saman skráð. Ég er með símtalið við formann stjórnar Bankasýslunnar í mínum síma. Ég hringdi í hann 20. desember til að upplýsa hann um þetta óskuldbindandi tilboð,“ sagði Helga Björk í viðtali við fréttastofu á föstudag.
Innihald þessa símtals er því nokkuð óljóst og Bankasýslan hefur ekki viljað tjá sig, staðfesta eða mótmæla, um hvað fór Tryggva og Helgu Björk á milli. Tryggvi sagðist í samtali við fréttastofu í gær ekki ætla að tjá sig um málið fyrr en í fyrsta lagi eftir að búið er að tilnefna fulltrúa í bankaráð Landsbankans. Frestur til þess rennur út 14. apríl næstkomandi, hluthafafundur Landsbankans fer svo fram fimm dögum síðar, 19. apríl.
Jón Gunnar segir í skriflegu svari við fréttastofu í morgun að hann ætli ekki að veita viðtal um málið.
Fréttin var uppfærð klukkan 11:41. Í fyrri útgáfu fréttarinnar sagði að Jón Gunnar hafi svarað fréttastofu því að það sama gilti um sig og Tryggva Pálsson, það er að hann ætlaði ekki að tjá sig fyrr en í fyrsta lagi 14. apríl. Jón Gunnar hefur skýrt það að skriflegt svar hans hafi verið rangtúlkað og hann ætli ekki að veita viðtal vegna málsins.