Innlent

Vilja koma böndum á bók­hald trú­fé­laga

Samúel Karl Ólason skrifar
Guðrún Hafsteinsdóttir er fjármálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir er fjármálaráðherra. Vísir/Ívar

Dómsmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp sem ætlað er að auka kröfur á forsvarsmenn trúfélaga, lífsskoðunarfélaga, sjóða og stofnana varðandi utanumhald reksturs. Það regluverk sem gildir um slík félög hér á landi þykir skapa verulega hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Samkvæmt frumvarpinu, sem finna má hér á vef Alþingis, á að skikka áðurnefnda forsvarsmenn til að halda bókhald um rekstur trú- og lífsskoðunarfélaga og gera ársreikninga. Þetta eigi að gera utanumhald fjármuna skýrara.

Ársreikningum á að skila til sýslumanns og honum yrði gert að leggja sektir á félög sem skiluðu þeim ekki.

Þá er einnig lagt til í frumvarpinu að að breytingar verði gerðar og nýtt ákvæði sett í lög sem kveði á um hæfisskilyrði stjórnarmanna trú- og lífsskoðunarfélaga.

„Eru þetta m.a. hæfisskilyrði er varða lögræði, búsforræði og búsetu. Þá er lagt til ákvæði um viðurlög við brotum á lögunum.“'

Sjá einnig: Zuism-bræður dæmdir í Lands­rétti

Í greinargerð frumvarpsins segir að Ísland sé skuldbundið til þess að samræma löggjöf sína að tilmælum alþjóðlega fjármálaaðgerðahópsins Financial Action Task Force, eða FATF. Greining og áhættumat ríkislögreglustjóra hafi sýnt fram á að regluverkið hér á landi skapi hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Sjá einnig: Vill breyta lögum um að­gerðir gegn peninga­þvætti

Bæði í gegnum trú- og lífsskoðunarfélög og sjóði og stofnanir sem starfi samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

„Það er opinber stefna íslenskra stjórnvalda að íslensk löggjöf skuli á hverjum tíma innihalda fullnægjandi varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og uppfylla þær alþjóðlegu kröfur sem gerðar eru til varna gegn slíkum brotum,“ segir í greinargerðinni.

Mikilvægt þykir að þessar lagabreytingar hafi tekið gildi þegar næsta úttekt FATF fer fram hér á landi á næsta ári.


Tengdar fréttir

Áhætta tengd spilakössum áður talin mikil en nú veruleg

Áhætta vegna sýndareigna er metin mikil í nýrri áhættumatsskýrslu sem Ríkislögreglustjóri hefur sent frá sér. Að auki er áhætta tengd spilakössum metin veruleg. Þá er áhætta vegna peningaþvætti tengdum peningasendingum milli landa metin minni en áður. 

Ann­markar á vörnum allra stóru bankanna gegn peninga­þvætti

Fjármálaeftirlit Seðlabankans hefur talið vera annmarka á vörnum allra stóru viðskiptabankanna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eftir að það framkvæmdi vettvangsathugun hjá bönkunum á liðnu ári. Arion banki hefur nýlega óskað eftir því að ljúka málinu gagnvart fjármálaeftirlitinu með sátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×