Skoðun

Eftir­liti með snyrtistofum á­bóta­vant

Halla Signý Kristjánsdóttir skrifar

Í kastljósi á RÚV á þriðjudag var fjallað um eftirlit með snyrtistofum vegna hugsanlegs mansals og eftirlits með fagmenntun þeirra sem starfa þar. Snyrtifræði er löggild iðngrein hér á landi og er varin í lögum um handiðnað. Á grundvelli þeirra laga ber lögreglu að hafa eftirlit með framkvæmd ákvæða laganna. Það er ljóst að lítið sem ekkert eftirlit er haft með snyrtistofum hér á landi og réttindum þeirra sem þar starfa. Hvað þá eftirlit með öðrum ólöglegum athæfum líkt mansali sem er öllu alvarlegri og athæfi sem aldrei á að líða.

Í vetur hef ég lagt fram fyrirspurnir til dómsmálaráðherra á Alþingi um eftirlit með snyrtistofum hér á landi sem staðfestir umfjöllunina um vöntun á eftirliti. Í svari við fyrirspurn minni kom fram að samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra hefur lögreglan á síðastliðnum þremur árum haft til rannsóknar tvær snyrtistofur vegna brota á lögum um handiðnað, á grundvelli ábendingar, en í báðum tilvikum var rannsókn hætt. Ekki var svarað hversu mörgum snyrtistofum lögreglan hefur haft eftirlit með til þess að kanna hvort starfsmenn uppfylli skilyrði þess að starfa sem snyrtifræðingar í samræmi við lög um handiðnað, og gefur svarið vísbendingu um hversu virkt eftirlitið er.

Verjum lögverndaða iðnmenntun

Þeir snyrtifræðingar sem starfa hér á landi hafa sótt sér menntun og reynslu samkvæmt þeim stöðlum sem settir hafa verið. Þá menntun ber að virða líkt og aðra iðnmenntun. Okkur ber líka einnig að fagna erlendum iðnmeisturum sem koma hingað til lands og sannarlega eru með fagmenntun til slíkra starfa. Þá er nauðsynlegt að heilbrigðiseftirlitið og vinnueftirlitið skerpi á eftirlitinu og að staðfest sé með einhverjum ferlum að þeir sem starfi í greininni séu með löggildingu í faginu.

Lélegt eftirlit með snyrtistofum vekur einnig upp spurningar hvort sama sé upp á teningnum þegar kemur að eftirliti öðrum iðngreinum sem falla undir lög um handiðnað. Á undanförnum árum hefur eftirspurn aukist hér á landi eftir iðnaðarfólki og öllum vinnandi höndum á því sviði verið fagnað. En það þarf að fylgja eftir með eðlilegu eftirliti þannig að iðnaðarfólk sem fyrir eru geti treyst því að sömu kröfur séu gerðar til allra sem starfa í faginu og ekki síst til þess að önnur ólögleg starfsemi fái síður að blómstra hér á landi.

Höfundur er þingmaður Framsóknar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×