Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég hef alltaf verið mikill morgunhani og fer á fætur á milli klukkan hálf sjö og sjö.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
Morgnarnir eru besti tími dagsins, fjögurra ára sonur minn vaknar yfirleitt á sama tíma og ég, og við feðgar sitjum tveir í eldhúsinu og deilum ristuðu brauði þangað til annað heimilisfólk tínist á fætur.
Ég kíki annars í blöðin og hlusta á Morgunvaktina, enda mjög vanafastur í minni morgunrútínu.
Mér þykir óendanlega vænt um þessa gæðastund með minnsta manninum enda oft mjög skemmtilegar umræður sem þar myndast.“
Þungarokk eða diskó?
„Ég er alæta á tónlist og hlusta á svo að segja alla tónlist, svo fremi að hún hafi verið samin fyrir 1990. En ef ég ætti að velja þá myndi ég segja diskó því þessa dagana er ég mjög upptekinn af því að hlusta á breska nýbylgjutónlist frá níunda áratugnum og þar er ansi mikið diskóskotið. Svo voru náttúrúlega Bee Gees og Michael Jackson gríðarlega miklir listamenn.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Það er náttúrulega öll þessi endalausu handtök sem þarf að vinna í ört stækkandi sparisjóði; mann óraði ekki fyrir hversu mikinn meðbyr indó hefur fengið og hvað verkefnum fjölgar ört samhliða því. En það sem ég helst að einbeita mér að er að virkja afahlutverkið, enda á ég eina yndislega afastelpu sem er að verða eins árs nú í apríl.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Ég held að ég virki örugglega ansi óskipulagður í vinnu, en mér finnst það samt ekki. Ég vinn best ef ég er með marga bolta á lofti í einu og þýt úr einu í annað, þannig hef ég alltaf unnið skilvirkast og best.
En ég reyni að halda fundasetu í lágmarki, ómarkviss fundur er aldrei betri en markviss tölvupóstur.
Annars er eðli míns hlutverks í indó þannig að erfitt er að skipuleggja sig vel fram í tímann, engar tvær vikur eru eins.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Það er eiginlega vandræðalegt að segja frá því en ég er mjög kvöldsvæfur. Ef ég næ að tóra fram til klukkan tíu án þess að skríða upp í rúm og lesa þá telst það vera mikið afrek.“