Það má segja að maður sé hættur að þekkja sig þegar maður kemur í Vík því það hefur verið byggt svo mikið þar á síðustu árum, ekki síst hótel og starfsemi tengd ferðaþjónustu. En íbúðum fjölgar líka samhliða mikilli fólksfjölgun á staðnum eins og sveitarstjórinn þekkir manna best.
„Það fjölgar og við erum bara spennt fyrir áframhaldandi uppbyggingu. Það hefur áfram verið mikil fjölgun íbúa og það hefur aldrei verið byggt jafn mikið íbúðarhúsnæði. Við erum að fara að byggja nýjan leikskóla hjá okkur og erum að fara að skipuleggja nýtt íbúðahverfi í Vík á alveg óbyggðu svæði þar sem er gert ráð fyrir allt að tvö hundruð íbúðum,” segir Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps.
Þúsundir ferðamanna heimsækja Vík daglega
En af hverju er Vík svona vinsæll staður?
„Þetta er auðvitað mjög fallegur staður og við njótum líka góðs af því að það er gott aðgengi af auðlindum ferðaþjónustunnar,” segir Einar Freyr.

Talandi um ferðaþjónustuna, á hverjum einasta degi heimsækja þúsundir ferðamanna Vík eða stoppa þar á ferð sinni um landið.
En hvað segir Einar sveitarstjóri, eru íbúar í Vík orðnir þreyttir á öllum þessum ferðamönnum?
„Þú getur eflaust fundið einhvern hérna, sem er það en ég er alinn upp í ferðaþjónustu, þannig að ég er ekkert orðin þreyttur,” segir sveitarstjórinn.
Leikskóli, lögreglustöð og bókabúð að opna
Einar Freyr segir að það standa til að stækka verslunarmiðstöðina í Þorpinu þar sem Icewear og Krónan eru meðal annars og svo er Penninn að fara að opna í Vík og sveitarfélagið er að flytja starfsemi sína í nýtt ráðhús og lögreglustöð er að opna í þorpinu svo eitthvað sé nefnt.
„Og þá erum við í raun og veru búin með verslunar- og þjónustulóðirnar í bili, menn bíða eftir því að fleiri séu tilbúnar,” segir Einar Freyr.
