Guðlaug Ágústa Halldórsdóttir fasteignasali vakti athygli á því í Bítinu á Bylgjunni í gær að ómögulegt væri nú að sækja um hlutdeildarlán hjá HMS. Þegar hlutdeildarlán voru kynnt til sögunnar árið 2020 var kerfið þannig að sex úthlutanir voru á ári. Einn mánuð var opið fyrir umsóknir og þann næsta unnið úr þeim og þær afgreiddar og þetta endurtekið út árið.
Eftir nokkra gagnrýni var því breytt og úthlutað tólf sinnum á ári, í hverjum mánuði það er að segja. Sá hátturinn hefur verið á að allur mánuðurinn hefur verið úthlutunartímabil og fólk því vart þurft að bíða eftir afgreiðslu umsókna.
Komin með samþykkt kauptilboð en dyrnar hjá HMS lokaðar
Hlutdeildarlán eru hugsuð þannig að fyrstu kaupendum eða tekjulágum stendur til boða að fá allt að 20 prósent kaupverðs í íbúð lánuð til að koma sér inn á markaðinn. Á þessu láni hvíla engir vextir en þess í stað fær HMS sama hlutfall og var lánað af hagnaði þegar íbúðin er seld. Lánin eru því nokkur áhætta fyrir HMS.
„Það sem kom mér svo á óvart núna er að það er allt í einu komið inn á heimasíðu HMS að „umsóknartímabilinu frá 6.3. til 21.3. er lokið og unnið er úr umsóknum. Næsta umsóknartímabil verður auglýst síðar“. Þetta er náttúrulega ekki í lagi, þetta er úrræði sem á að vera í boði,“ sagði Guðlaug Ágústa í Bítinu í gær.
Hún sagði þessa fyrirvaralausu lokun á umsóknir hafa áhrif á einhverja skjólstæðinga sína, sem séu komnir með samþykkt kauptilboð en komi nú að lokuðum dyrum.
Hlutdeildarlán ekki sjálfsagt mál
Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri HMS, svarar vangaveltum Guðlaugar í Bítinu í morgun og minnir í viðtalinu á að úrræðið sé ekki sjálfsagt mál.
„Þetta er skattfé, þetta eru takmörkuð gæði og við verðum að vanda okkur mjög vel þegar við erum að úthluta þessum lánum. Þetta er ekki fyrir hvern sem er, þetta er ekki sjálfsagt mál. Það var kannski umræðan, eins og ég upplifði hana í gær, að þetta væri sjálfsagt mál, hver sem er gæti fengið hlutdeildarlán,“ segir Anna Guðmunda.
Hún segir mun meiri eftirspurn hafa verið eftir hlutdeildarlánum undanfarna mánuði en áður.
„Úthlutun lauk núna í lok mars og þá kannski kemur að kjarna málsins. Það er búin að vera miklu meiri ásókn í þetta núna en við sáum fyrir og það eru ákveðnir fjármunir sem við höfum heimildir til að lána út,“ segir Anna.
„Nú erum við bara að komast svolítið nálægt því að verða búin með það en stjórnvöld samþykktu eða ákváðu að styðja við uppbyggingu með stuðningi sínum við kjarasamningana. Það kemur meira fjármagn. Það er ekki alveg ljóst [hvenær næsta úthlutun er] en það verður í apríl.“