Ljóst er að mikil eftirvænting ríkir vegna upphafs Íslandsmótsins og ekki síst vegna komu Gylfa Þórs Sigurðssonar sem spilar í fyrsta sinn í Bestu deildinni. Hann verður í sviðsljósinu á sunnudagskvöld þegar Valur mætir ÍA í fyrstu umferð, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport, og verður myndavél á Gylfa allan tímann.
Gylfi sat fyrir svörum á fundinum í dag ásamt Arnari Grétarssyni þjálfara Vals, Jóni Þór Haukssyni þjálfara ÍA og Arnóri Smárasyni leikmanni ÍA, sem áður lék með Val.
„Ég er mjög spenntur fyrir sumrinu,“ sagði Gylfi á fundinum í dag. Hann hefur spilað með Val í undanúrslitum Lengjubikarsins og Meistarakeppni KSÍ, en nú er komið að upphafi Íslandsmótsins.
„Loksins eru æfingaleikirnir búnir og deildin að byrja. Það er það sem við viljium gera, spila fyrir þrjú stig og með meira undir en í síðustu leikjum. Núna er alvaran að byrja og auðvitað breytist undirbúningurinn hjá manni fyrir leiki. Þú ert meira að hugsa um að vera í toppstandi á leikdag núna.
Ég er mjög spenntur og þetta verður hörkudeild. Liðin eru búin að styrkja sig og það eru betri hópar hjá flestum liðum. Ungir, spennandi leikmenn og líka leikmenn að koma heim. Ég held að deildin sé á frábærum stað,“ sagði Gylfi sem sagði það vera í höndum þjálfarans Arnars Grétarssonar hve mikið hann myndi spila á sunnudaginn. Sjálfur vildi hann spila sem mest, eftir að hafa jafnað sig af meiðslum.
Beina útsendingu Valsmanna frá Hlíðarenda mátti sjá hér að neðan:
Valsmenn ætla greinilega að byrja fótboltasumarið af krafti og bjóða í alvöru Fan Zone að Hlíðarenda á sunnudaginn. Þeir Gústi B. og Prettyboitjokko verða á svæðinu, umræður í pallborði og þjálfarar Vals og ÍA fara yfir byrjunarliðin sín, ásamt fleiru.
— ValurFotbolti (@Valurfotbolti) April 4, 2024