Erlent

Reka tvo og refsa fleirum vegna á­rása á hjálparstarfsmenn

Samúel Karl Ólason skrifar
Íbúar Gasa skoða einn af bílnum sem árás var gerð á.
Íbúar Gasa skoða einn af bílnum sem árás var gerð á. AP/Abdel Kareem Hana

Tveimur yfirmönnum í ísraelska hernum hefur verið vikið úr starfi í kjölfar rannsóknar á mannskæðum loftárásum á hjálparstarfsmenn World Central Kitchen. Rannsakendur segja alvarleg mistök hafa verið gerð og starfsreglur hersins hafi verið brotnar þegar árásirnar voru gerðar.

Sjö starfsmenn WCK féllu þegar þrír merktir bílar hjálparsamtakanna voru sprengdir fyrr í vikunni. Verið var að ferja matvæli sem höfðu komið sjóleiðina í vöruhús þegar sprengjum var varpað á bílana úr lofti. Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur lýst árásunum sem mögulegum stríðsglæp.

Sjá einnig: Hjálparsamtök fresta aðgerðum vegna árásarinnar

Hermenn segjast hafa talið að sendiferðabílarnir þrír sem sprengdir voru hafi innihaldið Hamas-liða. Einn talsmanna ísraelska hersins segir að árásirnar hefðu aldrei átt að eiga sér stað.

Einum major og einum ofursta hefur verið vikið úr stafi. Þá verða fleiri yfirmenn hersins ávíttir í starfi. Þá segja forsvarsmenn hersins að lært verði af atvikinu og komið verði í veg fyrir sambærileg mistök í framtíðinni.

Þrýstingur á Ísraela hefur aukist mjög vegna mikils mannfalls meðal óbreyttra borgara og gífurlegrar eyðileggingar á Gasa vegna stríðs Ísraela gegn Hamas-samtökunum. Aðstæður á Gasaströndinni eru sagðar verulega slæmar fyrir rúmar tvær milljónir íbúa svæðisins og er hungursneyð yfirvofandi.

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísrael, tilkynnti í morgun að flæði neyðargagna inn á Gasa yrði aukið og nýtt landamærahlið milli Ísrael og Gasa yrði opnað.

„Lítil huggun“

Forsvarsmenn WCK segja ísraelska herinn hafa tekið mikilvæg skref en þeirra eigin rannsókn síni að starfsreglur og viðmið hafi verið brotin. Staðfest hafi verið að hjálparstarfsmenn samtakanna hafi fylgt reglum og Ísraelar hafi ekki útskýrt af hverju árásir voru gerðar á bílalestina.

„Afsökunarbeiðnir þeirra vegna svívirðilegra dauðsfalla kollega okkar eru lítil huggun,“ segir Erin Gore, framkvæmdastjóri WCK í yfirlýsingu.

Umfangsmiklar og kerfisbundnar breytingar þurfi til að koma í veg fyrir frekari mistök, frekari afsökunarbeiðnir og syrgjandi fjölskyldur.

„Stærsta ástæða þessar óréttmætu skothríðar á bílalest okkar er mikill matvælaskortur á Gasa,“ segir í yfirlýsingu frá WCK. Þá segir þar að Ísraelar þurfi allra fyrst að bæta úr því, auka flæði matvæla og lyfja til Gasa, ef þeim sé alvara með að styðja við hjálparstarf á svæðinu.

„Það er ekki nóg að reyna að forðast frekari dauðsföll hjálparstarfsmanna,“ segir José Andrés, stofnandi WCK. „Allir borgarar þurfa vernd og allt saklaust fólk Gasa þarf mat og öryggi. Einnig þarf að sleppa öllum gíslunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×