Íslenski boltinn

Stór tíðindi úr Víkinni: Nadía ekki lengur leik­maður Víkings

Aron Guðmundsson skrifar
Nadía Atladóttir hefur verið einn besti leikmaður Víkings Reykjavíkur
Nadía Atladóttir hefur verið einn besti leikmaður Víkings Reykjavíkur Mynd:Víkingur

Nadía Atladóttir er ekki lengur leikmaður Bestu deildar liðs Víkings Reykjavíkur. Þetta staðfesta bæði Kári Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu sem og Nadía sjálf í samtali við Vísi.

Ljóst er að um mikinn skell er að ræða fyrir lið Víkings Reykjavíkur en Nadía hefur verið með bestu leikmönnum liðsins sem varð bikarmeistari á síðasta tímabili og tryggði sér einnig sæti í efstu deild á komandi tímabili. 

Nadía var fyrirliði Víkinga en nú er ljóst að hún leikur ekki með liðinu á komandi tímabili. Samningi milli hennar og Víkings Reykjavíkur hefur verið rift.

„Leikmaðurinn og þjálfari liðsins (John Andrews) áttu samtal sín á milli og leikmaður taldi betra að hún héldi á önnur mið í kjölfar þess samtals,“ sagði Kári í stuttu svari til blaðamanns og sagði hann yfirlýsingu að vænta frá félaginu. Nadía sjálf staðfesti svo einnig tíðindin í samtali við Vísi.

Nadía á að baki 152 leiki með meistaraflokki hér á landi og hefur í þeim leikjum skorað 61 mark. Óvíst er á þessari stundu hvert hún heldur núna. 

Víkingur Reykjavík hefur leik í Bestu deild kvenna á útivelli gegn Stjörnunni þann 22.apríl næstkomandi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×