Í fréttum Stöðvar 2 var rætt við Einar Örn Ólafsson, forstjóra Play, í tilefni hlutafjárútboðs. Félagið beinir núna fimmhundruð milljóna króna útboði að almenningi og smærri hluthöfum en var áður búið að sækja sér aukið hlutafé til fagfjárfesta.
„Við erum fyrir nokkru búin að tilkynna að við erum búin að safna 4.500 milljónum í þeirri hlutafjárhækkun. Og þetta er svona lokahnykkurinn,“ segir Einar.

Á nærri þriggja ára rekstrartíma hefur Play ekki enn náð að skila hagnaði. Forstjórinn segir ekki óeðlilegt að slíkt taki þrjú til fjögur ár.
„Þetta tekur alltaf svolítinn tíma. En við erum að gera ráð fyrir að við förum í kringum núllið á þessu ári og síðan í plús á því næsta. Og það er ekkert úr takti við það sem við sjáum hjá erlendum félögum.“
Félagið er komið með tíu þotur og yfir fimmhundruð starfsmenn. Einar Örn áætlar að veltan í ár verði um fjörutíu milljarðar króna og að um ein og hálf milljóna farþega fljúgi með Play á árinu. Þannig fari núna fimmti hver farþegi um Leifsstöð með Play og hlutfall Íslendinga sé orðið enn hærra.
„Það eru auðvitað tugir flugfélaga þarna og eitt sem gnæfir yfir. Svo erum við næststærstir en með tuttugu prósent í Keflavík. En erum með, að okkar mati, um það bil 45 prósent af öllum Íslendingum.
Og það sýnir, að okkar mati, að þegar við höfum náð að kynna okkur fyrir markaðnum þá er okkur mjög vel tekið,“ segir forstjórinn.

Misvísandi upplýsingar hafa borist að undanförnu um hvernig horfir í ferðaþjónustu. En hvernig meta þau hjá Play stöðuna?
„Merkin sem við erum að fá eru að árið 2024 verði í ferðamannafjölda til Íslands eitthvað svipað og í fyrra. Ég myndi halda frekar örlítil aukning heldur en örlítill samdráttur. En sem sagt, frekar svipað.“
Athygli vakti í síðasta mánuði að Birgir Jónsson vék úr starfi forstjóra fyrir Einari Erni sem verið hafði stjórnarformaður Play í þrjú ár en hann er stærsti eigandinn.
„Ég er að setja drjúgan hluta af mínum peningum í þetta og langar bara svolítið að fylgja þeirri fjárfestingu minni eftir með þessum hætti,“ segir Einar Örn Ólafsson.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: